Sama stjórn hjá knattspyrnudeild Tindastóls en ekki tókst að manna barna- og unglingaráð

Á aðalfundi knattspyrnudeildar Tindastóls, sem fram fór í gærkvöldi, gáfu stjórnarmenn kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn. Annað var uppi á teningnum hjá barna- og unglingaráði, sem starfað hefur með sjálfstæðan fjárhag í um tvö ár, þar sem ekki náðist að fullmanna stjórnina og flyst því rekstur þess til stjórnar deildarinnar.

„Það var vitað með einhverjum fyrirvara að núverandi stjórn gæfi ekki kost á sér í barna- og unglingaráði utan eins sem var var til í slaginn. Það voru ekki nema tveir aðrir sem buðu sig fram í stjórnina á aðalfundinum í gær, sem ekki er talið nóg. Það þyrftu að vera að lágmarki fimm og helst sjö manns,“ segir Sunna Björk Atladóttir, formaður knattspyrnudeildarinnar. Af þessum sökum var ákveðið að skila barna- og unglingastarfinu aftur inn til stjórnar deildarinnar. Hún segir að frestur hafi verið gefinn til 15. desember til að reyna að manna ráðið annars mun stjórn sjá um starfsemi ráðsins fram að næsta aðalfundi hið minnsta.

Það var seinnihluta árs 2018 sem barna- og unglingaráði var komið á laggirnar og ári síðar komið með sér kennitölu. Í kjölfarið var ráðið rekið með sér fjárhag líkt og lengi hafði verið stefnt að. Sunna segir það mjög mikilvægt að fólk átti sig á því að fjárhagur meistaraflokkanna og unglingaráðsins sé haldið aðskildu. Þetta reynist því vera bagaleg staða sem komin er upp í ráðinu og hvetur Sunna fólk til að bjóða fram krafta sína og hafa samband við hana, eða einhvern stjórnarmanna.

Þó tekist hafi að manna stjórn deildarinnar að þessu sinni telur Sunna að almennt sé erfitt að fá fólk til að starfa í stjórnum íþróttafélaga. Það rímar illa við yfirlýsingar Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna sem fyrir skömmu stóðu fyrir málstofu undir yfirskriftinni „Framtíðin er kvenna en við erum hins vegar föst í núinu!“ Málstofunni var ætlað að stuðla að fjölgun kvenna í stjórnum knattspyrnudeilda hér á landi. „Ég held að konur séu alveg tilbúnar að bjóða sig fram í stjórnir knattspyrnufélaga. Ég held líka að það sé kannski ekki leitað mikið til þeirra,“ sagði Inga Lára Jónsdóttir, önnur tveggja sem komu fram í þessu sambandi við Stöð 2. Hin var Rakel Logadóttir. „Þurfum að fá fleiri konur inn til þess að gæta hagsmuna ungra kvenna og stúlkna,“ sögðu þær í viðtalinu og því eru konur sérstaklega hvattar til þess að taka þátt í íþróttastarfi ungra iðkenda hjá Tindastól. Sunna segir að nú sé unnið að því að ráða framkvæmdastjóra sem myndi starfa bæði fyrir deild og unglingaráð.

Stjórn knattspyrnudeildar er þannig skipuð:
Formaður: Sunna Björk Atladóttir
Varaformaður: Hjörtur Elefsen
Gjaldkeri: Magnús Helgason
Meðstjórnandi: Magnús Jóhannsson
Meðstjórnandi: Guðni Kristjánsson
Meðstjórnandi: Guðný Axelsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir