„Sama hvað á gengur, haltu áfram“
Feykir sendi Árna Eggerti Harðarsyni, þjálfara kvennaliðs Tindastóls, nokkrar spurningar að leik loknum nú á laugardaginn og spurði fyrst hvað honum hefði fundist um leikinn. „Þetta var ekki fallegur leikur sóknarlega hjá okkur. Við hittum ekkert, hefðum ekki getað fyllt vatnsglas þótt við værum á bólakafi, töpuðum klaufalegum boltum, það var bara ekkert að ganga upp. En við gerðum allt til að vinna leikinn.“
Árni Eggert segir að orkan, ákveðnin, grimmdin og viljinn hafi verið ólýsanlegur hjá Stólastúlkum. „Ef við skorum ekki þá stoppum við bara í vörninni. Eftir svona langan kafla af tapleikjum þá getur verið erfitt að ná loksins í sigurinn og eins og ég sagði þá var þetta ekki fallegt í dag en við bættum alltaf mistök upp með einhverju góðu annars staðar. Winston Churchill sagði einu sinni: „If you're going through hell, keep going,“ eða eins og það myndi leggjast út á okkar ylhýra, sama hvað á gengur, haltu áfram. Það er búið að vera hugarfarið undanfarnar vikur, þótt þetta hafi verið erfið taphrina þá var trúin var alltaf þarna og það er það sem gerði þetta fyrir okkur í dag, það var aldrei gefist upp, við héldum áfram og gerðum betur. Við gleðjumst í kvöld en á morgun mætum við samt aftur í salinn og byrjum að undirbúa okkur fyrir næsta leik sem er á þriðjudaginn gegn Grindavík.“
Hvað finnst þér um árangur Tindastóls það sem af er móti?„Mótið er hálfnað og við erum í fimmta til sjöunda sæti. Það er stutt upp töfluna en einnig niður. Ekki það sem við ætluðum okkur í upphafi vetrar en þetta er búinn að vera skrýtinn vetur. Við vorum í brasi með atvinnumanninn okkar í byrjun og hún fór rétt áður en allt fór í lás. Svo höfum við ekki ennþá fengið mikla hjálp úr því stöðugildi eftir að tímabilið fór af stað en aðrir leikmenn hafa stigið upp og axlað þá ábyrgð vel. Við féllum á nokkrum prófum, töpuðum óþarfa leikjum en erum búin að læra af því. Það er stígandi og við erum að ná betri tökum á því sem við erum að gera, það eru nýjir og spennandi vinklar að þróast sem eiga eftir að hjálpa okkur mikið þegar fram líða stundir. Stefnan er að vera í efri hlutanum og fá heimavöll í fyrstu umferð. Við hlökkum mikið til úrslitakeppninnar. Þar uppskera duglegustu liðin alltaf árangur.“
Árni segist aðspurður um hvort von sé á erlendum leikmanni til að styrkja liðið ekki hafa svör við þeirri spurningu. Næsti leikur er hinsvegar hér heima í Síkinu nú strax á þriðjudaginn en þá kemur sterkt lið Grindvíkinga í heimsókn. Leikurinn hefst kl. 19:15.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.