Rúnar Már rúmenskur meistari
Skagfirðingurinn Rúnar Már Sigurjónsson varð á dögunum rúmenskur meistari með liði sínu CFR Cluj þrátt fyrir að það sé einn leikur eftir í úrslitakeppninni, en hann gekk til liðsins í febrúar á þessu ári frá FC Astana sem leikur í Kasakstan. Rúnar Már varð einnig bikarmeistari með CFR Cluj í apríl. Rúnar hefur leikið 12 leiki fyrir liðið það sem af er tímabili og skorað í þeim 3 mörk.
Fyrirkomulagið í rúmensku efstu deildinni (liga 1) er þannig að 16 lið leika 30 umferðir heima og heiman við hvort annað. Það lið sem endar í fyrsta sæti í deildarkeppninni verður deildarmeistari en lið Rúnars CFR Cluj endaði í öðru sæti í henni á eftir FCSB. Efstu sex liðin í deildarkeppninni fara áfram í úrslitakeppni þar sem þau líka tvö leiki gegn hvort öðru heima og heiman og efsta liðið á stigafjölda verður rúmenskur meistari, og er lið Rúnars búið að tryggja sér þann titil. Efstu tvö liðin í úrslitakeppninni leika síðan einn leik og liðið sem hefur betur í þeim leik kemst í Evrópudeildina. Neðstu 10 liðin í deildarkeppninni leika síðan einn leik á móti hvort öðru og neðstu tvö liðin falla um deild.
Rúnar Már er að ljúka sínu áttunda tímabili í atvinnumennsku en hann hóf sína atvinnumennsku með sænska liðinu GIF Sundsvall. Rúnar spilaði sinn fyrsta meistaraflokk einungis 15 ára gamall með liði Tindastóls árið 2005 þegar liðið lék í 2. deild. Rúnar Már hefur einnig leikið 32 leiki fyrir íslenska landsliðið og skorað í þeim tvö mörk en hann fór með íslenska landsliðinu á EM 2016.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.