Rúnar Már fyrirliði hjá Grasshoppers
Það fór svo í sumar að Króksarinn Rúnar Már Sigurjónsson, atvinnumaður í knattspyrnu, var ekki valinn í íslenska landsliðið sem tók þátt í HM sem fram fór í Rússlandi. Í fyrravetur var hann lánaður frá Grasshoppers í Sviss til St. Gallen en hagur hans virðist þó hafa vænkast að nýju því nú er kappinn orðinn fyrirliði hjá Grasshoppers samkvæmt frétt á Fótbolti.net.
Fram kemur í fréttinni að svissneska úrvalsdeildin sé komin af stað eftir sumarfrí en síðan segir: „Rúnar var á láni hjá St. Gallen seinni hluta tímabilsins í fyrra þar sem hann var ekki inn í myndinni hjá Murat Yakin, þáverandi þjálfara liðsins. Nýr þjálfari liðsins, Þjóðverjinn Thorsten Fink, virðist vera hrifnari af Rúnari Má því Rúnar var með fyrirliðabandið hjá Grasshopper í dag [sunnudag].
Grasshopper spilaði við meistarana í Young Boys og þurftu Rúnar og félagar að sætta sig við 2-0 tap. Grasshopper missti mann af velli með rautt spjald í upphafi fyrri hálfleiks, í stöðunni 0-0 og það kostaði liðið. Rúnar Már spilaði allan leikinn.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.