Rannveig Lilja Helgadóttir hlaut Samfélagsviðurkenningu Molduxa

Frá setningu jólamóts Molduxa í morgun. Rannveig Lilja Helgadóttir tekur við Samfélagsviðurkenningu Molduxa 2016.
Frá setningu jólamóts Molduxa í morgun. Rannveig Lilja Helgadóttir tekur við Samfélagsviðurkenningu Molduxa 2016.

23. jólamót Molduxa í körfubolta hófst í morgun. 18 lið eru skráð til keppni og verður leikið viðstöðulaust fram á seinniparts dags þegar úrslit liggja fyrir. Áður en mótið var sett var Samfélagsviðurkenning Molduxa veitt í annað sinn. Að þessu sinni var það Rannveig Lilja Helgadóttir sem hlaut þann heiður en hún hefur verið ötul í íþróttastarfi í Skagafirði og komið víða við. Meðal annars hefur Rannveig gegnt starfi formanns sunddeildar Tindastóls, gjaldkeri skíðadeildar Tindastóls í um tvo áratugi, var meðal annarra stofnandi fimleikadeildar innan Tindastóls, sem reyndar er ekki starfandi lengur.  

Í frjálsíþróttadeildinni starfaði hún af einurð um tíma og var formanni þess deildar betri en enginn, Viggó Jónssyni eiginmanni sínum, og var á það minnst við athöfnina að hún væri kletturinn í lífi hans. Þá er ótalið það starf sem hún er búin að leggja í körfuknattleiksdeild Tindastóls en þar var hún öflugur starfskraftur til margra ára. Þess má geta að hún sér um búningamál meistaraflokks Tindastóls og þvær af þeim búningana og hefur gert lengi.

Rannveig Lilja Helgadóttir.Þegar minnst er á körfubolta og Rannveigu kemur nafnið Helgi Rafn upp í hugann enda einn öflugasti körfuboltamaður sem Skagfirðingar hafa haft á fjölum íþróttahússins en  fyrir þá sem ekki vita er Helgi Rafn sonur Rannveigar. Nafni hans og afi, Helgi Rafn Traustason fv. kaupfélagsstjóri, faðir Rannveigar er upphafsmaður körfuboltans á Sauðárkróki.

Á upphafssíðu fundargerðarbókar körfuknattleiksdeildar Tindatóls stendur: 

“Körfuknattleikur á Sauðárkróki”

“Árið 1964, þegar Helgi Rafn Traustason flutti til Sauðárkróks, hófust æfingar í körfuknattleik á vegum UMF. Tindastóls. Undir handleiðslu Helga, sem áður lék með KFR, hóf lið Tindastóls keppni við önnur lið. Fyrsti leikur Tindastóls fór fram í leikfimisal Barnaskólans og var keppt við Hólaskóla.“ (Körfuknattleiksfélag Reykjavíkur, eða KFR, var innlimað í kkd. Vals árið 1970. Ekki má rugla því saman við KR sem er knattspyrnufélag. Það eru því liðin 52 ár síðan fyrst var farið að leika íþrótt íþróttanna hér í bæ.

Helgi Rafn Traustason lést 21. desember árið 1981, langt fyrir aldur fram, aðeins 44 ára gamall og eru því 35 ár síðan sá sorgaratburður gerðist.

Í lok athafnarinnar klöppuðu viðstaddir vel fyrir Rannveigu Lilju og ekki síst Helga Rafni Traustasyni sem á sinn þátt í þeirri körfuboltaveislu sem boðið er upp á í dag og í nánast hverri viku í Síkinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir