Pétur með sigurkörfu á næst síðustu sekúndunni

Pétur var með sigurkörfuna í kvöld.  MYND: ÓAB
Pétur var með sigurkörfuna í kvöld. MYND: ÓAB

Tindastólsmenn fögnuðu sætum sigri í Þorlákshöfn í kvöld þegar þeir mættu heimamönnum í Þór í áttundu umferð Dominos-deildarinnar. Leikurinn var allan tímann fjörugur og spennandi og úrslitin réðust í blálokin þegar Pétur Birgis setti ískaldur niður flauelsþrist þegar 1,4 sekúndur voru til leiksloka. Lokatölur 92-95 fyrir Tindastól.

Heimamenn byrjuðu betur og þá sérstaklega Maciej Bagingski sem setti niður tvo þrista af sama blettinum og var nánast óstöðvandi í fyrri hálfleik. Pétur og Hester komu Stólunum yfir en eftir hnífjafnan fyrsta leikhluta voru það heimamenn með Tobin Carberry illviðráðanlegan venju samkvæmt sem kláruðu leikhlutann betur og voru yfir 26-25 að honum loknum. Pálmi Geir setti niður tvo þrista snemma í öðrum leikhluta og í raun var allt í járnum þangað til um þrjár mínútur lifðu af hálfleiknum en þá setti Caird niður einn af sex þristum sínum í leiknum og í kjölfarið náðu Stólarnir góðum kafla og voru yfir í hálfleik, 49-56.

Eftir smá atlögu frá heimamönnum í byrjun þriðja leikhluta setti Caird niður þrjá þrista á skömmum tíma og Tindastólsmenn virtust ætla að stinga af, staðan 58-69. Þá kom upp bilun í tæknibúnaði á ritaraborði og dómarar stöðvuðu leikinn í um fimm mínútur. Þegar leikurinn hófst aftur höfðu heimamenn náð að hrista saman vörnina hjá sér og Stólarnir fundu ekki taktinn. Þeir misstu boltann ítrekað og voru frekar ósáttir við nokkra dóma á þessum kafla þar sem Þórsarar gerðu 18 stig í röð! Pétur átti þó síðustu körfu leikhlutans og Þór með fimm stiga forskot fyrir lokaátökin. Staðan 76-71.

Stólunum hafði gengið afleitlega að nýta styrkleika Hesters í þriðja leikhluta en nú fóru þeir að koma boltanum aftur inn á hann og þá var ekki að sökum að spyrja. Hann skilaði niður nokkrum boltum af harðfylgi og fékk oftar en ekki vítaskot að auki og þeim skilaði hann niður af fagmennsku. Helgi Margeirs kom Stólunum yfir 76-77 og síðan skiptust liðin á um að hafa forystuna. Hester fékk snemma í leikhlutanum sína fjórðu villu og Pétur spilaði með fjórar villur síðustu ellefu mínúturnar. Hester kom Stólunum yfir 84-85 þegar fimm mínútur voru eftir og síðustu mínúturnar voru Tindastólsmenn jafnan 2-6 stigum yfir. Þegar tvær og hálf mínúta voru eftir fékk Hester sína fimmtu villu, frekar klaufalega, og þá vænkaðist hagur heimamanna. Þeir færðust nær og eftir tvær sóknir þar sem Pétur var ósáttur við að fá ekki eitthvað fyrir sinn snúð hjá dómurum leiksins, þá jafnaði Emil Karel leikinn með 3ja stiga skoti þegar 17 sekúndur voru eftir af leiknum. Pétur tók boltann upp og inn á vallarhelming heimamanna. Þar tók hann lífinu með ró þangað til þrjár sekúndur voru til leiksloka. Þá dripplaði hann að 3ja stiga línunni þar sem hann tók fallegt 3ja skot með varnarmann í andlitinu. Og kviss, bamm, búmm eins og segir í kvæðinu.

Þórsarar tóku leikhlé og reyndu síðan að jafna leikinn en skot Carberrys var aldrei nálægt því að rata í körfu Tindastóls og frábær sigur því í höfn.

Eftir þessi úrslit er lið Tindastóls í 1.–4. sæti Dominos-deildarinnar með jafn mörg stig og KR, Stjarnan og Grindavík. Hester var atkvæðamestur hjá Stólunum með 26 stig og 12 fráköst en Caird var með 24 stig og þar sex þrista í níu tilraunum. Pétur átti fínan leik en tapaði þó átta boltum sem hann er pottþétt ekki sáttur við.  En kappinn er óttalaus og lokaskotið var algjör foringjakarfa. Pálmi Geir kom sterkur til leiks og gerði 10 stig. Þriggja stiga nýting Stólanna var frábær eða 50% (12/24) og vítanýtingin var 85% sem er náttúrulega fáránleg bæting frá í síðasta leik.

Tölfræði á vef KKÍ >

Næsti leikur Stólanna er næstkomandi fimmtudag en þá mæta fjallbrattir Skallagrímsmenn með fyrrum Stólana Flake og Sigtrygg Arnar í fantaformi. Þá verða stuðningsmenn Stólanna að fjölmenna í Síkið. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir