Pétur gerði gæfumuninn gegn Hetti

Anthony Gurley fer framhjá Tobin Carberry en þeir voru stigahæstu menn vallarins, Gurley með 17 stig en Carberry 31. MYNDIR: ATLI BERG KÁRASON
Anthony Gurley fer framhjá Tobin Carberry en þeir voru stigahæstu menn vallarins, Gurley með 17 stig en Carberry 31. MYNDIR: ATLI BERG KÁRASON

Tindastólsmenn héldu austur á Egilsstaði í gær þar sem þeir léku við lið Hattar í Dominos-deildinni í körfubolta. Lið Hattar situr á botni deildarinnar með aðeins einn sigur í vetur en nú á nýju ári hafa þeir alla jafna verið að spila hörkuleiki en mátt bíta í það súra epli að tapa leikjum sínum á ögurstundu. Það varð engin breyting á því í gær því Pétur Birgisson setti niður sigurþrist þegar tvær sekúndur voru eftir af leiknum og breytti stöðunni úr 81-81 í 81-84.

Sennilega hafa margir stuðningsmenn Stólanna vonast til þess að strákarnir hristu af sér slyðruorðið og næðu sannfærandi sigri eftir að tveir kanar bættust í hópinn fyrir leik, þeir Myron Dempsey og Anthony Gurley. Sú varð ekki raunin því Stólarnir voru í basli framan af leik og leikmenn Hattar leiddu mest allan leikinn. Að sjálfsögðu verður að gera ráð fyrir því að Dempsey og Gurley þurfi smá tíma til að falla inn í leik Tindastóls og vonandi að liðið skríði saman á næstu dögum því það má við fáum skakkaföllum í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Leikmenn Hattar voru sprækari til að byrja með og eftir að Lewis kom Stólunum í 7-8 þá gerðu heimamenn næstu 13 stig. Tvær 3ja stiga körfur frá Svabba og Viðari færðu Stólana nær heimamönnum og staðan 27-22 þegar fyrsti leikhluti var úti. Lewis jafnaði leikinn síðan 32-32 en heimamenn náðu aftur góðum kafla og komust tíu stigum yfir, 46-36, þegar rúm mínúta var til leikhlés. Gurley minnkaði muninn og í kjölfarið kom þristur frá Helga Margeirs og Pétur minnkaði muninn enn frekar með tveimur vítaskotum rétt fyrir hlé. Staðan 46-42 fyrir Hött.

Sóknarleikur liðanna var ekki upp á marga fiska í þriðja leikhluta. Stólarnir minnkuðu muninn í 48-47 en þá komu þrjár körfur í röð frá Hetti. Dempsey setti þá þrist og svo tvö stig til viðbótar og þriðji þristur Viðars Ágústssonar kom Stólunum yfir 54-55. Þá kom fjögurra mínútna kafli þar sem Tindastólsmönnum var fyrirmunað að skora. Helgi Margeirs lagaði stöðuna undir lok leikhlutans með þristi. Staðan 63-58.

Svabbi skoraði tvö stig í upphafi fjórða leikhluta og var svo heppinn að Hreinn bróðir hans, sem átti fínan leik fyrir Hött, braut á honum þannig að stóri bróðir bætti við einu stigi. Næstu mínútur var allt í járnum og leikurinn æsispennandi. Nú kom Gurley sterkur inn hjá Stólunum og gerði sjö stig í röð og staðan orðin 70-72 fyrir Tindastól. Tvö stig frá Lewis og tvö víti frá Gurley komu Stólunum í 70-76 þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir. Staðan var vænleg þegar 90 sekúndur voru eftir, 73-80, en heimamenn gáfust ekki upp og jöfnuðu leikinn 81-81 þegar 10 sekúndur voru eftir. Stólarnir tóku leikhlé og var lagt upp með að Lewis ætti að fá boltann og klára. Hann fékk boltann og fékk strax á sig nokkra andstæðinga en hann náði að senda boltann á Pétur sem var aleinn og yfirgefinn í vinstra horninu. Hann fór beint í 3ja stiga skot þegar þrjár sekúndur voru eftir og niður fór boltinn. Heimamenn tóku leikhlé og Hreinsi reyndi skot í blálokin en sem betur fer klikkaði kappinn. Lokatölur 81-84 fyrir Tindastól.

Stigahæstir í liði Tindastóls voru Gurley með 17 stig og Lewis með 16 stig og sjö stoðsendingar. Dempsey var með 11 stig líkt og Viðar sem var með fína nýtingu í leiknum. Tindastólsmenn eru nú í sjöunda sæti deildarinnra með 16 stig og eiga leik inni hér heima gegn Njarðvík næstkomandi fimmtudagskvöld. Með sigri kæmu Stólarnir sér upp að hlið Njarðvíkinga og Hauka í deildinni. Vonandi ná Stólarnir að slípa maskínuna aðeins til fyrir næstu átök. 

Stig Tindastóls: Gurley 17, Lewis 16, Dempsey 11, Viðar 11, Helgi Viggós 8, Svabbi 8, Helgi Margeirs 6, Pétur 5 og Flake 2.

Myndirnar sem hér fylgja tók Atli Berg Kárason.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir