Stólastúlkur komnar upp!
Nú rétt í þessu lauk leik Völsungs og Tindastóls í Lengjudeild kvenna en leikið var á Húsavík. Ljóst var fyrir leikinn að sigur var allt sem þurfti til að tryggja sæti í Pepsi Max-deildinni að ári. Sigurinn var öruggur þrátt fyrir að stelpurnar hafi ekki átt sinn besta leik. Lokatölur 0-4 og ekkert annað að gera en að óska þessum frábæru stúlkum hjartanlega til hamingju – þær hafa gert Skagfirðinga nær og fjær stolta!
Eftirvæntingin var víða mikil, margir spenntir að sjá leikinn sem var sýndur á YouTube-rás Völsungs. Þannig var til dæmis helsti stuðningsmaður Stólastúlkna í Mið-Ameríku sestur framan við tölvuna rúmlega klukkutíma fyrir leik.
Aðstæður voru kannski upp á marga fiska á Húsavík en það var sennilega algjört aukaatriði í dag. Nú snérist allt um að tryggja sigur í stærsta leik skagfirskrar knattspynusögu og þar með sæti í efstu deild. Jafnræði var með liðunum framan af en, svo maður setji rispuðu plötuna á enn og aftur, þá var vörn Tindastóls örugg og sóknir liðsins hættulegar. Eitt mark var skorað í fyrri hálfleik og fór vel á því að Bryndís Rut fyrirliði og varnarmaskína gerði það (loksins) eftir aukaspyrnu frá Jackie.
Í síðari hálfleik bætti Hugrún við öðru marki Tindastóls eftir að hafa fylgt eftir skoti frá Mur. Eftir þetta komst ró á leik gestanna og það var aðeins annað liðið líklegt að skora. Rakel Sjöfn gerði þriðja mark Tindastóls eftir góðan undirbúning Mur og það var síðan auðvitað Mur sem rak smiðshöggið á þessu veislu með týpísku Mur-marki, fékk stungu inn fyrir og komst fram fyrir varnarmann Völsungs, inn á teig og þrumaði í markið úr þröngu færi.
Síðustu mínútur leiksins fóru helst í að skipta leikmönnum inn á og út af og þar á meðal kom Krista Sól inn á í fyrsta sinn síðan hún sleit krossbönd fyrir rúmu ári síðan og það gladdi stuðningsmenn. Þegar dómarinn flautaði loks leikinn af brutust út mikil fagnaðarlæti en hópur stuðningsmanna Tindastóls skellti sér á Húsavík í dag og samgladdist með Stólastúlkum í leikslok.
Liði Tindastóls var spáð þriðja sæti í deildinni á eftir liðum Keflavíkur og Hauka sem nú berjast um annað sætið í Lengjudeildinni. Eftir að Tindastóll tók Keflvíkinga í karphúsið um miðjan ágúst hefur liðið unnið alla sína leiki og ekki fengið á sig mark.. Ætla má að það séu um 600 mínútur síðan stelpurnar fengu síðast á sig mark en á sama tíma hefur liðið skorað 20 mörk. Það er ágæt tölfræði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.