Pape vaskur í níu marka veislu á Vopnafirði
Tindastólsmenn skutust austur á Vopnafjörð í gær þar sem Einherjar biðu eftir að taka á móti þeim í mikilvægum slag í botnbaráttu 3. deildar. Lukkan hefur ekki verið í liði með Stólunum í síðustu leikjum og staða liðsins því ekki góð í deildinni. Það var því bráðnauðsynlegt fyrir leikmenn að sýna úr hverju þeir eru gerðir og grípa stigin þrjú með sér heim og rífa sig upp úr fallsæti í leiðinni. Þetta hafðist í níu marka veislu þar sem Stólarnir skoruðu helmingi fleiri mörk en heimamenn. Lokatölur 3-6.
Það blés ekki byrlega í upphafi því Björn Ingólfs kom Einherja yfir á 3. mínútu en Pape Mamadou Faye jafnaði tveimur mínútum síðar. Heiðar Aðalbjörnsson kom heimamönnum yfir á ný á 11. mínútu en Addi Ólafs jafnaði á ný á 27. mínútu. Pape kom Stólunum síðan yfir á 38. mínútu og staðan í hálfleik 2-3.
Pape fullkomnaði þrennuna á 57. mínútu og bætti fjórða marki sínu við fimm mínútum síðar. Vopnfirðingurinn í liði Tindastóls, Sverrir Hrafn, kláraði leikinn fyrir Stólana með marki á 73. mínútu. Ismael Moussa Yann Trevor átti hins vegar síðasta mark leiksins á fjórðu mínútu í uppbótartíma.
Með sigrinum komst lið Tindastóls úr 11. sæti upp í það níunda en segja má að 3. deildin skiptist jafnt milli topp- og botnbaráttu; sex lið í hvorri baráttu. Stólarnir fóru ansi fáliðaðir austur en aðeins 15 leikmenn voru á skýrslu og einn þeirra var Atli Jónasson í þjálfarateyminu.
Spurning um að gefast ekki upp
Feykir heyrði í Hauki Skúla, þjálfara Tindastóls, og spurði hann út í leikinn. „Leikurinn var mjög fjörugur, Einherji kom af miklum krafti í leikinn og var þetta aðallega spurning um að mæta kraftinum þeirra og þá myndu gæðin í okkar liði taka yfir,“ segir Haukur. „Það var akkúrat það sem gerðist, gæðin okkar tóku yfir leikinn og uppspilið var á köflum alveg frábært og heilt yfir mjög gott allan leikinn. Síðustu leikir hafa verið meira stöngin út en stöngin inn. Okkur hefur vantað að geta siglt sigrinum heim þegar við höfum forystu þegar lítið er eftir. Þetta er bara spurning um að gefast ekki upp og halda alltaf áfram því þá munu þessu litlu atriði sem hafa fallið gegn okkur byrja að falla með okkur.“
Nú voru aðeins 15 menn á skýrslu í gær hjá Stólunum. Hver er staðan á hópnum og reiknarðu með að styrkja hópinn í glugganum? „Við vorum frekar fámennir í síðasta leik, það eru hinar ýmsu ástæður fyrir því. Ingvi, Fannar, Árni og Böddi hafa verið meiddir. Anton markmaður meiddist svo að auki í þessari viku. Það voru líka veikindi í hópnum auk þess sem Einar Ísfjörð og Bragi Skúlason voru að spila á sama tíma með 3. flokki. Varðandi styrkingar á hópnum er það eitthvað sem er bara verið að skoða. Við þjálfararnir höfum mikla trú á þeim mannskap sem við höfum en það vantar hins vegar meiri breidd og samkeppni í vissar stöður auk þess sem Halldór Broddi, sem hefur verið lykilmaður hjá okkur, fer aftur til Noregs fyrir lok júlí,“ segir Haukur að lokum.
Næsti leikur Tindastóls er nú á miðvikudaginn þegar strákarnir mæta liði KFG á OnePlus-vellinum í Garðabæ en um er að ræða leik sem var frestað vegna Covid í upphafi móts. Næstkomandi laugardag kemur síðan lið KFS úr Eyjum í heimsókn á Krókinn og hefst leikurinn kl. 12:00. Lið KFS er í neðsta sæti sem stendur, þó aðeins tveimur stigum á eftir liði Tindastóls, og má því reikna með hörkuleik. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.