Ótrúlega öflug liðsheild og samstaða einkenna liðið
Það hefur ekki farið framhjá mörgum að kvennalið Tindastóls tryggði sér sæti í efstu deild kvennaboltans næsta sumar með því að vinna í gær sinn þrettánda sigur í Lengjudeildinni. Þar með varð ljóst að lið Keflavíkur og Hauka gætu ekki bæði komist upp fyrir lið Tindastóls í toppbaráttu deildarinnar. Aldrei fyrr í sögu Umf. Tindastóls hefur félagið átt lið í efstu deild fótboltans og því rétt að heyra aðeins í öðrum þjálfara liðsins, Guðna Þór Einarssyni, sem segir tilfinninguna í leikslok hafa verið hreint ólýsanlega.
„Að fá að taka þátt í að koma uppeldisfélaginu sínu upp í efstu deild eru hrein og tær forréttindi,“ segir Guðni Þór sem er 32 ára gamall Króksari en hann þjálfar liðið í félagi við Jón Stefán Jónsson sem er 38 ára gamall Akureyringur. „Fyrst og fremst er ég alveg ótrúlega stoltur af hópnum sem setti sér þetta stóra markmið strax eftir síðasta tímabil og hefur unnið markvisst að því að láta þennan draum rætast. Það sem er svo einkennandi fyrir liðið er þessi ótrúlega öfluga liðsheild og samstaða, ekki bara innnan leikmannahópsins heldur þeim fjölmörgu sem hafa starfað og stutt við liðið í sumar.“
Guðni segir að árangur stelpnanna í sumar komi alls ekki af sjálfu sér. „Grunnurinn var lagður í yngri flokka starfi síðustu ár sem skilar góðum leikmönnum upp í meistaraflokk. Þar verð ég að nefna Guðjón Örn, Vönda Sig og Dúfu sem byrjuðu að leggja þennan góða grunn. Hugarfar og þrotlaus vinna skilar svo leikmönnum ennþá lengra og nú fá þær að upplifa drauminn að spila meðal bestu leikmanna Íslands.“
Hann þakkar öllum stuðningsmönnum fyrir ómetanlegan stuðning. „Ykkar stuðningur á risastóran þátt í að liðið sé komið á þann stað sem það er í dag. Við erum hvergi nærri hætt, við ætlum okkur að vinna síðustu þrjá leikina og tryggja okkur efsta sætið í deildinni og taka á móti bikarnum þann 9. október,“ segir Guðni og bætir við í lokin: „Til hamingju við öll. Áfram Tindastóll!“
Tindastóll mætir liði Hauka nk. sunnudag á Sauðárkróksvelli en það er næstsíðasti leikur liðsins á heimavelli á þessu tímabili. Það er um að gera að nýta tækifærið, mæta á völlinn, hvetja stelpurnar til sigurs og óska þeim til hamingju með einstakan árangur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.