Öruggur sigur gegn Samherjum
Tindastóll spilaði annan leik sinn í Kjarnafæðismótinu í knattspyrnu í gær þegar liðið sótti Samherja úr Eyjafirði heim á KA-völlinn. Líkt og í síðasta leik þá hafðist öruggur sigur en lokatölur urðu 5-1 og Stólarnir því í góðum málum í B-deild mótsins.
Lið Tindastóls í gær var skipað blöndu leikmanna sem spiluðu með liðum Tindastóls og Kormáks Hvatar í sumar en í Kjarnafæðismótinu þurfa menn ekki að vera skráðir leikmenn hjá liðinu sem þeir spila fyrir. Byrjunarlið Tindastóls var skipað Einari Ísfjörð markmanni, Svend og Domi bakverðir og Sverrir og Bjarki Már hafsentar, Konni, Sigurður Pétur og Jónas á miðjunni, Arnar og Jón Gísli á köntunum og Sigurður Bjarni frammi. Á bekknum hímdu framan af leik þeir Anton (m), Benedikt, Emil og Ísak.
Fyrsta mark leiksins gerði Jón Gísli Stefánsson á 21. mínútu og mínútu síðar bætti Addi við marki. Jón Gísli gerði annað mark sitt á 28. mínútu og staðan 3-0 í hálfleik. Eyfirðingar hleyptu smá spennu í leikinn á 72. mínútu þegar Ágúst Örn Víðisson minnkaði muninn en fjórum mínútum síðar jók Konni muninn í þrjú mörk á ný. Jónas Aron spreyjaði gullflögum yfir úrslitiin með marki á 81. mínútu og eru Tindastóll og Hamrarnir nú á toppi deildarinnar með fullt hús eftir tvo leiki. Liðin mætast einmitt í þriðju umferð og er áætlað að leikurinn fari fram 15. janúar.
Annar flokkur Tindastóls verður síðan á ferðinni á Akureyri í dag en þeir spila við KA klukkan tvö. Ekki hefur verið haldið úti 2. flokki hjá Tindastóli síðustu árin og því gleðiefni að sjá líf kvikna í þeim aldursflokki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.