„Okkar framtíð er í okkar höndum“
Feykir hafði samband við Óskar Smára Haraldsson, annan þjálfara Stólastúlkna, eftir tapleik gegn meistaraliði Breiðabliks í Pepsi Max deildinni í gærkvöldi. Óskar Smári var sáttur við framlagið hjá liðinu. „ Það er ekki annað hægt [fyrir okkur þjálfarana] en að vera ánægðir með stelpurnar. Þær lögðu sig allar sem ein fram, hlupu eins og engin væri morgundagurinn og höfðu trú á verkefninu.“
Hver voru helstu mistökin sem lið Tindastóls gerði í leiknum?„Mistökin voru nú afar fá, fannst okkur, miðað við uppleggið. Auðvitað var hægt að koma í veg fyrir mörkin sem við fáum á okkur en við teljum þau vera frekar ódýr. Bara trackaniður, halda svæðum hefði mátt vera betra í fyrsta marki, annað markið er fast leikatriði, þriðja barningur i teignum þar sem Blikarnir voru aðeins frekari.“
Breytti það einhverju að skora svona snemma í leiknum?„Við teljum það ekki hafa breytt neinu að komast yfir snemma, eftir frábært mark frá Jackie, en við byrjuðum rosalega sterkt og hefðum viljað halda því aðeins lengur út.“
Var þessi leikur í kvöld svipaður fyrri leikjum Stólastúlkna gegn Blikum í byrjun sumars?„Þessi leikur var svipaður að því leytinu til að við vorum minna með boltann, sköpum færri færi en Blikar, en líkur að því leytinu til að okkur fannst við gefa þeim hörkuleik. Það má ekki gleymast í umræðunni að við erum að spila við núverandi Íslandsmeistara sem eru ágætar í því sem þær gera.
Eru nýju leikmennirnar, Lala og Nadín, að koma vel inn í liðið?„Já, við erum ánægðir með þá. Þær eru að komast í takt við það sem við erum að gera og við erum að kynnast þeim alltaf betur og betur. Lala er með ótrúleg gæði, reynslu og á eftir að nýtast okkur vel. Nadín er að aðlagast vel og hefur komið með mikinn kraft inn í okkar starf.“
„Nú tekur við hörkuleikur gegn Þór/KA,“ segir Óskar Smári. „Við teljum okkur vera betra lið og ætlum að ná í þrjú stig þar. Þrátt fyrir tap í kvöld þá horfum við björtum augum á framhaldið, enda ekki annað hægt þar sem við erum í þeirri stöðu að okkar framtíð er í okkar höndum.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.