„Ógleymanlegt að sigra England.“ Rúnar Már í viðtali við Feyki

Rúnar Már Sigurjónsson/Mynd: ruv.is
Rúnar Már Sigurjónsson/Mynd: ruv.is

Nú er EM ævintýrið í algleymingi og hversdagsleiki sumarsins tekinn við. Garðurinn sleginn, útveggirnir málaðir, sumarhúsaferðir og sólbað, svona þegar sú gula nennir að fara fram úr. Fótboltadrengirnir okkar eru jafnvel komnir niður á jörðina eftir að hafa svifið um á töfraskýji í Frakklandi. Einn þeirra er frá Sauðárkróki en það er auðvitað hann Rúnar Már Sigurjónsson. Blaðamaður Feykis spurði hann um ævintýrið í Frakklandi og nýjan samning sem hann gerði við svissneska knattspyrnuliðið Grasshopper.

Fyrsta spurningin snýr að upplifun Rúnars Más af EM ævintýrinu. Rúnar segir það erfitt að segja, hann hafi í rauninni ekki enn áttað sig á þessu. „Held að það komi seinna því maður var svo einbeittur á að gera eins vel og maður getur á æfingum og svo vera klár ef maður myndi spila,“ sagði Rúnar Már og bætti við að hann hefði sama hugarfar hjá félagsliði sínu. „Hugsaði aldrei hversu stórt þetta væri, þetta var „bara fótbolti““.

Aðspurður um magnaðasta augnablikið í Frakklandi að mati Rúnars Más segir hann að sigurmarkið á móti Austurríki hafi verið ótrúlegt. „Það gjörsamlega misstu sig allir.“ Þá segir hann að magnaðasta augnablikið hafi þó verið sigurinn á Englandi. „Liði sem allir þekkja og liði sem ég persónulega held með á stórmótum bara af því að maður horfir á þessa gæja allar helgar. Að vinna England á þessum tímapunkti er eitthvað sem engin gat ímyndað sér. Ógleymanlegt.“

Blaðamaður lá forvitni á að vita hvort það hafi verið erfið ákvörðun fyrir Rúnar Má að ákveða sig þegar Grasshopper hafði samband. Rúnar Már segir að það hafi alls ekki verið erfitt. Hann hafi fundið að hann þyrfti að halda áfram að bæta sig. Ennfremur sagði hann „Áskorunin var ekki lengur til staðar. Stefnan var að komast út fyrir Skandinavíu og ég er mjög sáttur að það tókst.“ Hann segir aukreitis að það sé auðvitað alltaf erfitt að fara frá liði sem maður á góða vini í og líður vel hjá. „en svona er fótboltinn, hlutirnir geta breyst hratt.“

„Þau voru nokkur,“ svarar Rúnar Már er hann er spurður hvort fleiri lið hafi verið á eftir honum. Hann vildi lítið gefa upp um það hvaða lið það voru en segir að frá byrjun hafi Grasshopper verið inn í þessu þannig að ekkert annað kom til greina. „En nefni engin nöfn en þau voru í Skandinavíu og þau heillaði mig ekki eins mikið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir