Nýjasti Stóllinn kominn í dreifingu
Stóllinn, kynningarblað körfuknattleiksdeildar Tindastóls fyrir tímabilið 2022-2023, er komið út og verður dreift í öll hús á Sauðárkróki í dag. Venju samkvæmt er blaðið fullt af viðtölum og upplýsingum um körfuboltavertíðina, kynning á leikmönnum og leikjum meistaraflokka o.s.frv. Þetta er í fjórða sinn sem Stóllinn er gefinn út en þess má þó geta að sérstakur Bikar-Stóll fór á netið snemma árs 2020 þegar lið Tindastóls komst í undanúrslit bikarkeppninnar.
Spjallað er við Vladimir Anzulovic þjálfara karlaliðsins, Pat Ryan þjálfara kvennaliðsins sem og Kalvin Lewis yngri flokka þjálfara og aðstoðarþjálfara kvennaliðsins. Þá er Eva Rún Dagsdóttir fyrirliði í viðtali sem og landsliðsmaðurinn okkar, Arnar Björnsson.
Það er körfuknattleiksdeild Tindastóls sem er útgefandi en starfsfólk Nýprents á Sauðárkróki hafði veg og vanda að söfnun efnis og auglýsinga, uppsetningu og prentun. Myndirnar glæsilegu sem prýða blaðið tók Davíð Már Sigurðsson.
Hægt verður að nálgast Stólinn á nokkrum sérvöldum stöðum í Skagafirði, þ.m.t. í KS Hofsósi og Olís Varmahlíð, og ekki er loku fyrir það skotið að meistaraflokkar Stólanna hafi nokkur eintök með sér í útlileiki fyrir grjótharða stuðningsmenn sína.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.