Njarðvíkurstúlkur sterkar í Síkinu

Eva Wium sækir að körfu Njarðvíkur. Hún átti erfitt uppdráttar í dag enda passað upp á hana eins og um erlendan leikmann væri að ræða. MYND: HJALTI ÁRNA
Eva Wium sækir að körfu Njarðvíkur. Hún átti erfitt uppdráttar í dag enda passað upp á hana eins og um erlendan leikmann væri að ræða. MYND: HJALTI ÁRNA

Eftir góðan sigur gegn liði sameinaðra Sunnlendinga (Hamar/Þór Þ) í 1. deild kvenna í körfubolta um síðustu helgi voru Stólastúlkur tæklaðar gróflega í parket í dag þegar fjallgrimmir en góðir gestir úr Njarðvík mættu í Síkið okkar. Heimastúlkur sáu ekki til sólar, frekar en aðrir Skagfirðingar síðustu dagana, og máttu þola stórt tap. Lokatölur 39-77.

Í umfjöllun Hjalta Árna sem birtist á Karfan.is að leik loknum segir: „Njarðvíkingar hófu leikinn með því að spila öfluga svæðispressu gegn heimastúlkum og það skilaði þeim 5-11 forystu eftir rúmlega tveggja mínútna leik. Heimastúlkur náðu að spila sig upp völlinn betur en öflug vörn gestanna gerði þeim erfitt fyrir að setja upp sínar sóknir og Njarðvík leiddi eftir fyrsta fjórðung 10-18. Vandræði heimastúlkna í sókninni héldu áfram í öðrum fjórðung og Njarðvíkurstúlkur gengu á lagið og Chelsea Jennings skoraði grimmt. Um miðjan fjórðunginn var forysta Njarðvíkinga orðin 16 stig og þær litu ekki til baka eftir það heldur bættu í.“

Í hálfleik var staðan 19-41 og sami dansinn var stiginn í síðari hálfleik og lið Njarðvíkur var 27-61 yfir að loknum þriðja leikhluta. Í lokaleikhlutanum náðu Stólastúlkur að skora 12 stig sem var þeirra mesta fjórðungsskor í leiknum. Mestur varð munurinn 44 stig, 30–74, en Karen Lind og Marín Lind náðu að laga stöðuna örlítið í lokin.

Svæðispressa gestanna virtist koma Stólastúlkum í opna skjöldu og fannst engin lausn að þessu sinni. Í viðtali Hjalta við Árna Eggert þjálfara kom fram að þetta kæmi ekki fyrir aftur..

Lið Tindastóls er enn án erlends leikmanns en þegar Feykir hafði samband við Ingólf Jón Geirsson, formann kkd. Tindastóls, nú í kvöld þá tjáði hann blaðamanni að vilji væri til þess að styrkja hópinn hjá stúlkunum með erlendum leikmanni. „Get lítið sagt um það að svo stöddu annað en að þetta er i vinnslu,“ sagði Ingó.

Tölfræði leiks á vef KKÍ >

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir