Myron Dempsey tekur við af Jerome Hill
Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem sagt er frá því að gengið hefur verið frá ráðningu á nýjum kana en Stólarnir hafa á ný samið við Myron Dempsey sem lék með liðinu á síðasta tímabili.
Þetta ætti að gleðja stuðningsmenn Tindastóls en ljóst er að Dempsey er talsvert skemmtilegri leikmaður en Jerome Hill, listamaður í loftinu og gerði margar gullfallegar körfur á síðustu leiktíð. Nú er bara að krossa fingur og vonast til þess að Dempsey verði fljótur að ná takti með sínum gömlu samherjum sem léku á köflum frábærlega saman í fyrravetur.
Í tilkynningunni segir jafnframt að stjórn kkd. Tindastóls hafi komist að samkomulagi við Jerome Hill um að hann hafi leikið sinn síðasta leik með liði Tindastóls og er honum þakkað samstarfið.
Miklar væntingar voru gerðar til Hill sem þótti ansi spennandi kostur fyrir Tindastól og var reiknað með því að hann ætti eftir að lýsa upp Dominos-deildina. Fljótlega varð þó ljóst að Hill var ekki sá leikmaður sem vonast var eftir og oftar en ekki sátu stuðningsmenn Stólanna og klóruðu sér í kollinum yfir frammistöðu hans.
Dempsey er væntanlegur á Krókinn nú strax upp úr helgi og verður vonandi klár í slaginn þegar Njarðvíkingar dúkka upp í Síkinu næstkomandi fimmtudagskvöld.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.