Mur, Jackie og Amber verða áfram með Stólastúlkum
Nú á dögunum samdi Knattspyrnudeild Tindastóls við bandarísku leikmennina, Murielle Tiernan, Jackie Altschuld og Amber Michel um að spila áfram með liði Tindastóls næsta sumar. Þá mun lið Tindastóls taka þátt í Pepsi Max deild kvenna og ljóst að það er mikið ánægjuefni að þessar frábæru stúlkur munu verða áfram á Króknum og taka þátt í ævintýrinu.
Markadrottningin Mur mun þá spila fjórða tímabil sitt með liði Tindastóls, leikstjórnandinn Jackie það þriðja og Amber verður sitt annað sumar í markinu. Þær áttu allar frábært tímabil með liði Tindastóls í sumar og haust. Tríóið góða fór fyrir stuttu heim til Bandaríkjanna en er væntanlegt aftur í Skagafjörðinn í byrjun næsta árs þegar undirbúningur fyrir komandi tímabil fer á fullt.
„Það er gríðarleg ánægja hjá félaginu með að hafa tryggt sér undirskriftir þeirra Mur, Jackie og Amber. Ég er mjög ánægður með að við í stjórn náðum að klára samninga við þær áður en þær fóru í smá frí. Þessar þrjár eru ekki aðeins partur af liðinu heldur líka partur af Tindastóls fjölskyldunni og kom aldrei neitt annað til greina hjá þeim en að skrifa undir og taka þátt í ævintýrinu sem bíður liðinu á næsta ári,“ sagði Rúnar Rúnarsson, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, þegar Feykir hafði samband.
Að sögn Rúnars er hafin vinna við að semja við þjálfara fyrir komandi tímabil og einnig er unnið að samningsmálum annarra leikmanna liðsins. Þá segir hann enn óljóst hvenær KSÍ afhendi liði Tindastóls bikarinn góða fyrir sigur í Lengjudeildinni en bikarinn hefði farið á loft á Sauðárkróksvelli síðastliðinn sunnudag, í sól og logni en takmörkuðum sumaryl, ef ekki hefði verið fyrir hertar COVID-aðgerðir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.