Monica og Gwen bætast í hópinn hjá Bestu deildar liði Tindastóls
Knattspyrnudeild Tindastóls hefur fengið til liðs við sig tvo feikisterka leikmenn til að styrkja Bestu deildar lið Stólastúlkna fyrir sumarið. Um er að ræða markmanninn Monicu Wilhelm sem er bandarísk og varnarmanninn Gwen Mummert sem er þýsk en hefur spilað í bandaríska háskólaboltanum. Þær eru báðar væntanlegar á Krókinn á næstu dögum samkvæmt upplýsingum Feykis.
Markmaðurinn Monica Wilhelm kemur beint úr háskólaboltanum í Bandaríkjunum þar sem hún spilaði í toppháskóla við frábæran orðstír. Monica mun koma og berjast við Margréti Rún um markmannsstöðuna í sumar. Hún er sterkur karakter og við væntum mikils af henni í hópnum. Monica er 22 ára gömul og 178 sm á hæð.
Varnarmaðurinn Gwen Mummert, sem er 23 ára gömul, er fjölhæfur leikmaður sem er þó ætlað að spila einna helst sem miðvörður. Hún mun væntanlega fylla skarðið sem Kristrún skilur eftir sig en hún meiddist mjög illa á dögunum og missir af fótboltasumrinu. Gwen er gríðarlega sterk og fljót, er góð á boltanum, með góðar sendingar og mjög sterk i föstum leikatriðum. Mörg lið voru á höttunum eftir Gwen og mikil ánægja er með að hún hafi valið að koma á Krókinn.
Fyrir var ljóst að Murr og Hannah höfðu framlengt samninga sína við lið Tindastóls og eftir því sem Feykir kemst næst mun Melissa Garcia, sem spilaði síðari helming síðasta sumars með liði Tindastóls, verða áfram.
Fyrsti leikur stelpnanna í Lengjubikarnum fer fram í dag en þær mæta sterku liði Keflavíkur klukkan 14:00 í Nettóhöllinni. Stuðningsfólk Tindastóls sunnan heiða að er hvatt til að skella sér í Keflavíkina og hvetja stelpurnar áfram!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.