Meistararnir með sýnikennslu í körfubolta í Síkinu

Ó boj!
Ó boj!

Blessaður Stofu-Stóllinn átti ekki von á góðu fyrir hönd sinna manna í Tindastóli fyrir leikinn gegn Íslandsmeisturum Þórs úr Þorlákshöfn sem fram fór í Síkinu í kvöld. Spáði nokkuð öruggu tapi. Aðrir voru kannski bjartsýnni þar sem liði Tindastóls hefur upp á síðkastið gengið ágætlega með Þórsarana. En ekki í kvöld. Á meðan meistararnir léku við hvurn sinn fingur var átakanlegt að horfa á lið Tindastóls sem missti móðinn strax í byrjun síðari hálfleiks og vont bara versnaði í framhaldinu. Lokatölur 66-109... ég endurtek ... nei, best að sleppa því.

Reyndar fékk leikurinn fljúgandi start því í byrjun voru Tindastólsmenn hreint frábærir, flestir boltar niður og hraðinn og áræðnin til fyrirmyndar. Verra var að Þórsarar voru bara alveg jafn frábærir og héldu svo bara áfram að vera það allt til leiksloka. Stólarnir entust í þrjár mínútur. Þeir komust í 12-8 en svo varð staðan 12-15 og stuttu síðar 14-23. Þá var tekið leikhlé og strákarnir komu sterkir til baka, minnkuðu í tvö stig, 21-23, en síðan háttuðu meistararnir Stólana, breiddu yfir þá sængina og buðu góða nótt.

Það er óþarfi að leiklýsa þessu sjónarspili sem gestirnir buðu upp á. Þeir voru hreint magnaðir. Boltinn gekk hratt á milli manna og alltaf endaði með því að þeir fengu opið skot og það var bara hreint ekki sanngjarnt að sjá hvað þeir hittu. Nýtingin utan 3ja stiga línunnar var bara djók; 19 niður í 38 tilraunum! Það var aldrei séns í kvöld.

Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 22-31, í hálfleik var staðan 40-60 og að loknum þriðja leikhluta 54-79. Lið Þórs vann alla leikhluta af öryggi, minnst með átta stiga mun og mest 15. Glynn Watson var magnaður í liði Þórs; gerði 25 stig, hirti fimm fráköst og átti tólf stoðsendingar. Sjö leikmenn í liði Þórs gerðu tíu stig eða meira sem er sömuleiðis magnað.

Nú er auðvitað auðvelt að skjóta lið Tindastóls á bólakaf eftir svona frammistöðu og raunar líka leikinn gegn Keflavík í umferðinni á undan. Við megum ekki gleyma því að liðið hefur verið í einu af topp sætunum fjórum það sem af er tímabilinu og spilað vel á köflum. En við viljum bera okkur saman við bestu liðin og gegn Þór og Keflavík höfum við hreinlega ekki verið með samkeppnishæft lið.

Strákarnir fá tækifæri til að rétta hlut sinn áður en langt um líður því milli jóla og nýárs mæta þeir hinu Þórsliðinu á Akureyri. Þar þurfum við nauðsynlega sigur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir