Meistarar Blika of stór biti fyrir banhungraðar Stólastúlkur

Blikastúlkur fagna öðru marki sínum í leiknum. MYNDIR: ÓAB
Blikastúlkur fagna öðru marki sínum í leiknum. MYNDIR: ÓAB

Íslandsmeistararnir úr Kópavogi, lið Breiðabliks, kom í heimsókn á Krókinn í gær til að skoða sólina og spila við lið Tindastóls í Pepsi Max deildinni góðu. Stólastúlkur hefur sjálfsagt dreymt um að leggja meistarana í gras en þrátt fyrir draumabyrjun Tindastóls þá reyndust Blikar búa yfir of miklum gæðum og nýttu sér nokkur mistök heimaliðsins til að sigla heim 1-3 sigri.

Aðstæður voru hinar bestu á Króknum í gær, um 14 stiga hiti og hægur norðan andvari. Fín stemning var í stúkunni og stuðningsmenn Stólastúlkna þurftu ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu. Það er varla hægt að segja að gestirnir hafi verið búnir að komast í boltann þegar Tindastóll náði forystunni eftir tveggja mínútna leik. Eftir pressu heimastúlkna og ágætt spil var brotið á Aldísi Maríu og Laufey og Jackie mættu á svæðið til að framkvæma spyrnuna . Það var Jackie sem skaut að marki, náði glæsilegum bananabolta (eins og hann kallaðist á Wembley í gamla daga) sem virtist stefna á mitt markið en endaði síðan ofarlega í nærhorninu, óverjandi fyrir Telmu í markinu. Blikar náðu smám saman yfirhöndinni eftir þetta enda urmull af teknískum og vel spilandi stelpum í liði þeirra. Vörn Tindastóls gaf þó ekkert eftir og gerði vel í að halda í við gestina. Jöfnunarmarkið kom á 18. mínútu eftir mistök á hægri kanti Stólanna, Blikar komust inn í sendingu til baka og náðu að opna vörnina þannig að Karítas Tómasdóttir fékk boltann inni á teiginn og kom boltanum framhjá Amber í markinu. Gestirnir voru meira með boltann fram að hléi án þess að skapa sér umtalsverð færi.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik nema gestirnir sendu fleiri í sóknina ef eitthvað var. Lið Tindastóls reyndi að finna Murr og Lauru en Blikar vörðust vel, stigu þær út og hægðu á þeim og komu þannig í veg fyrir að styrkur þeirra stallsystra nýttist. Blikar komust síðan yfir á 57. mínútu með marki úr hornspyrnu sem vörn Tindastóls á að vera ósátt með. Boltinn kom á nærstöng þar sem Ásta Eir Árnadóttir flikkaði honum laglega í markið en allt of auðveldlega. Á 70. mínútu tryggði Karitas sigur gestanna með hnitmiðuðu skoti eftir góða sókn þar sem varnarlína Tindastóls var teygð og toguð og fékk litla hjálp frá miðjunni. Eftir þetta komust Stólastúlkur betur inn í leikinn og fengu Murr og Laura tvo-þrjú ágæt færi til að laga stöðuna. Allt kom þó fyrir ekki og lið Breiðabliks vann sanngjarnan sigur.

Kristrún og María Dögg áttu flottan leik í baráttuglöðu og duglegu liði Tindastóls sem hefði með smá heppni getað krækt í stig í leiknum. Amber hefur örugglega ekki í langan tíma átt jafn náðugan dag í markinu en að þessu sinni skinu gæði Blikastúlkna í gegn þannig að þegar þær komust í færi þá var vel farið með þau. Lið Tindastóls hefur verið sterkt í föstum leikatriðum og sá Jackie sem fyrr um að taka aukaspyrnur Stólastúlkna en Telma var vel vakandi í marki Blika og sá við þeim – nema þeirri fyrstu þegar Jackie skoraði fyrsta mark sitt í Pepsi Max deildinni.

Eftir leikinn er lið Tindastóls á ný komið í fallsæti en Fylkisstúlkur skutust úr fallsæti með sigri á botnliði Keflavíkur í Keflavík, 1-2. Það er því stór leikur hjá Stólastúlknum í næstu umferð þegar þær halda á Akureyri til að eiga við sameinað lið Þórs/KA.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir