Markalaust í logninu á Króknum
Það var boðið upp á markalaust jafntefli á Sauðárkróksvelli í kvöld þegar Tindastóll tók á móti Þrótti úr Vogum. Leikurinn var í heildina frekar tilþrifalítill en það voru þó heimamenn í Tindastóli sem voru nær því að skora en þegar upp var staðið skiptu liðin stigunum bróðurlega á milli sín þó svo að bæði hafi þurft á fleiri stigum að halda.
Leikið var á aðalvellinum á Króknum í kvöld í blankalogni og var meira að segja boðið upp á sól í fyrri hálfleik. Lið Þróttar var í heildina meira með boltann í leiknum en vörn Stólanna og miðja var sterk og með Lamanna á kantinum var stöðug ógn af skyndisóknum Tindastóls. Lamanna var klaufi að koma ekki sínum mönnum yfir eftir fimm mínútna leik þegar hann komst á auðan sjó eftir mistök í vörn Þróttar en Tom Lohmann í marki gestanna varði hinsvegar glæsilega. Arnar Ólafs hitti ekki boltann í dauðafæri eftir undirbúning Lamanna og færin voru Tindastólsmanna í fyrri hálfleik.
Þróttarar komust betur inn í leikinn í síðari hálfleik á meðan að nokkuð virtist draga af heimamönnum. Þróttarar björguðu þó á línu skalla eftir hornspyrnu um miðjan síðari hálfleik og síðan jókst pressa gestanna þegar á leið og þeir sendu fleiri menn fram í sóknina. Stólarnir ógnuðu sem fyrr með skyndisóknum en úrslitasendingarnar klikkuðu. Þrátt fyrir pressu fengu Þróttarar engin dauðafæri í leiknum og fjórir háværir en kurteisir stuðningsmenn þeirra prísuðu sig sæla í leikslok.
Nokkur forföll voru í liði Tindastóls í kvöld. Benni og Arnar Skúli voru báðir í leikbanni og Hólmar Skúla og Jón Gísli voru fjarri góðu gamni og munar um minna. Þeir sem inn komu stóðu fyrir sínu og sem fyrr segir voru heimamenn óheppnir að ná ekki að skora í leiknum. Þeir hafa hinsvegar verið of fáir leikirnir þar sem Stólunum hefur tekist að halda hreinu og það var ánægjulegt að ná því í kvöld.
Þetta eina stig sem náðist í kvöld dugði til að komast upp að hlið Hattar, bæði lið með 11 stig en Stólarnir í fallsæti með verri markatölu. Huginn og Leiknir Fáskrúðsfirði gerðu jafntefli í kvöld og er Leiknir því með 12 stig en Huginn 6. Næsti leikur Tindastóls er mikilvægur en þá fara strákarnir í Garðinn og spila við Víði sem er með 13 stig en Víðismenn misstu í kvöld unnin leik niður í jafntefli á 94. mínútu.
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.