Mættum flatir í þennan leik, segir Helgi Rafn um tap Stóla í gær
Valsmenn gerðu góða ferð í Skagafjörðinn í gær þegar þeir kræktu í sigur í Síkinu gegn Stólum í Subway deildinni. Leikurinn var ansi kaflaskiptur þar sem Valsarar náðu góðu forskoti í fyrsta leikhluta 17 - 28 sem reyndist heimamönnum að jafna. Það gerðu þeir þó í fjórða leikhluta og höfðu sigurinn í höndum sér í lokin en lokaskotið geigaði sem þýddi framlengingu.
Eins og áður segir var leikurinn kaflaskiptur, Valsarar alltaf skrefinu á undan en Stólar náðu þó ágætum leik í öðrum leikhluta og skoruðu þá 19 stig gegn 13 gestanna. Í þriðja hluta leiksins voru varnir beggja liða upp á sitt besta og fór svo að Stólar skoruðu 15 gegn 17. Það var svo í lokaleikhluta sem Stólarnir söxuðu jafnt og þétt á forskot gestanna og náðu að komast yfir 68 – 67 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir. Þá varð kátt í höllinni og spenna hlaupin í leikinn enda fjögurra stiga munur þegar tvær mínútur lifði leik 71 – 67og stuðningsmenn Tindastóls farnir að eygja sigur sinna manna. En það eru ekki alltaf jólin og Valsarar ná að jafna þegar stutt er eftir en Stólar með boltann og geta unnið leikinn með lokaskoti leiksins. Lokasóknin var ekki sérlega vel framkvæmd og skot Keyshawn Woods geigaði. Staðan 73 – 73 og því þurfti að framlengja. Til að gera langa sögu stutta þá skoruðu Valsmenn ellefu stig gegn fimm Stóla og fögnuðu naumum sigri 78 - 84.
„Þetta gat dottið báðum megin. Við mættum flatir í þennan leik og menn voru bara ekki klárir í verkefnið og fer sem fer ef menn eru ekki klárir í svona leik, sem ég skil ekki því við vorum búnir að undirbúa okkur vel fyrir þennan leik. Ég skil ekki af hverju menn mættu ekki betur stefndir,“ sagði Helgi Rafn Viggósson, fyrirliði Tindastóls, er Feykir hafði samband fyrr í dag.
Valsarar komu vel stemmdir til leiks, vantaði allt Malt í Stóla?
„Já, það vantaði mikið upp á en svo small það þegar leið á leikinn. Það er ekki gott þegar maður fær á sig 28 stig í einum leikhluta. Það er ekki boðlegt.“ Eins og segir hér að framan voru Stólar lengi undir og forvitnilegt að vita hvort menn hafi alltaf trú á því að geta snúið leiknum sér í vil.
„Ég er allavega þannig gerður að það er sama hvernig staðan er, ég er alltaf að fara að vinna. Þetta er ekki búið fyrr en að klukkan gellur og dómarinn flautar leikinn af, þá er leikurinn búinn og á meðan hefur maður alltaf séns á að gera eitthvað eins og í gær, við sýndum það þegar við spiluðum okkar leik og okkar vörn. Við áttum loka skotið en vorum óheppnir að það skyldi ekki fara ofan í. Ég var ánægður með hvernig menn brugðust við og komu til baka inn í þennan leik. Það er ekki gott þegar menn lenda svona undir en þá þarf að trekkja menn í gang.“ Helgi segir að nú sé ekkert annað í stöðunni en að fara inn í nýtt ár með bros á vör og taka á móti Keflvíkingum 6. janúar á föstudagskvöldi.
Það setti góðan svip á jólahaldið að treyja Lárusar Dags Pálssonar var hengd upp í rjáfur með viðhöfn í leikhléi og segir Helgi það hafa verið gaman að sjá hve margir voru mættir og urðu vitni að.
„Ég lék með Lalla en hann var mjög skemmtilegur karakter. Hann var fyrirliði þegar ég spilaði með honum, mjög skemmtilegt að spila með honum. Þetta var vel uppsett hjá deildinni og gaman hvað mættu margir í húsið en hann spilaði einmitt líka með Val þannig að þetta var skemmtilegt,“ segir Helgi sem einnig vill þakka bakvarðasveitinni: „Ég vil þakka stuðningsmönnum og sjálfboðaliðum og stjórninni og öllum fyrir árið 2022. Við förum inn í nýtt ár og höfum gaman að þessu, ætlum í úrslitakeppnina og það er ekkert sem heitir með það. Við ætlum að fara alla leið, annars væru menn ekkert að standa í þessu. Við tökum þetta með trukki og áfram gakk.“
Hér fyrir neðan má sjá síðustu mínúturnar í leiknum:
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.