Maddie smitar orku og jákvæðu hugarfari til alls liðsins
Tvær erlendar stúlkur spila með kvennaliði Tindastóls í körfunni í vetur. Önnur þeirra er Madison Anne Sutton, eða bara Maddie, en hún verður 23 ára þann 13. desember. Maddie er frá Knoxville í Tennesee-fylki Bandaríkjanna, ein níu systkina og síðan á hún sjö litlar frænkur og frændur. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir hana.
Maddie hefur síðustu fjögur árin stundað nám í íþróttastjórnun við Tusculum háskólann í Tennesee og spilað köfubolta með skólaliðinu. Nú í sumar bauðst henni að ganga til liðs við Tindastól, sem teflir fram ungu en efnilegu liði í 1. deild kvenna, og hún var mætt til leiks í lok ágúst. Maddie er 180 sm á hæð og spilar stöðu kraft framherja. Maddie er 180 sm á hæð, leikur í stöðu kraftframherja og hefur verið að spila glimrandi vel fyrir lið Tindastóls, skorað yfir 25 stig að meðaltali í leik og tekið tæplega 18 fráköst og munar sannarlega um minna.
Feykir bað Jan Bezica, þjálfara kvennaliðs Tindastóls, að lýsa henni fyrir lesendum. „Maddie er frábær manneskja, það er auðvelt að tala við hana, hún hefur opinn huga, finnst gaman að eyða tíma með liðsfélögum og er sannur leiðtogi. Á vellinum lætur hún vel í sér heyra, smitar orku og jákvæðu hugarfari til alls liðsins. Hún færir okkur grimmd, stöðugleika og löngun hennar til að vinna og verða betri er ótrúleg. Sem þjálfari geturðu bara vonast eftir fleiri svona leikmönnum. Og það eru forréttindi að hafa hana í liðinu,“ segir Jan að lokum. En skiptum yfir á Maddie...
Hvað hefur komið þér mest á óvart síðan þú komst til Íslands? „Ég var mjög spennt fyrir að spila á Íslandi. Þetta er svo fallegt land og ég hafði heyrt frábæra hluti um fólkið og menninguna. Það sem hefur komið mér mest á óvart væri munurinn á verslunum og veitingastöðum miðað við Ameríku.“
Hvernig líkar þér að vera hluti af liði Tindastóls? „Það hefur verið frábær upplifun hingað til að vera hluti af Tindastólsliðinu. Samfélagið tók mér opnum örmum og mér líður eins og velkomin hér. Það krafðist svolítillar aðlögunar að spila körfubolta hér í Evrópu og ég er enn að læra. Ég þurfti að læra reglurnar og stílinn. Það eina sem hefur þó komið á óvart hingað til er hversu langt við þurfum að keyra í leiki.“
Hvað finnst þér um körfuboltann á Íslandi og er hann ólíkur þeim bandaríska? „Það er sumt ólíkt milli íslenskaog bandaríska körfuboltans en hvoru tveggja er frábær körfubolti. Ég myndi segja að svo framarlega sem þú ert með góða blöndu í liðinu og leggur hart að þér þá er hægt að láta þessu ólíku stíla smella saman.“
Hver er uppáhalds liðsfélaginn þinn? „Ég elska allar stelpurnar nú þegar – þær hafa hver um sig svo einstakan persónuleika. Þá er líka áhugavert að spila í liði þar sem blandast saman mismunandi aldurshópar – það býður alltaf upp á smá djók!“
Hverjar væntingar hafðir þú fyrir tíma þinn hér á Íslandi? „Vonir mínar voru að upplifa landið frá öllum hliðum; í gegnum körfuboltann, ferðalög og menninguna. Það er tækifæri sem manni býðst kannski aðeins einu sinni á ævinni að fá að spila erlendis svo ég vil nýta það sem best. Og auðvitað verða betri í körfubolta.“
Hvaða körfuboltamaður hefur verið þér fyrirmynd? „Ég elska leikmenn eins og Liz Cambage, A'ja Wilson, Elena Della Donne og Sue Bird vegna dugnaðarins innan sem utan vallar. Þær eru allir frábærar manneskjur og frábærir leikmenn, sem er frábær áminning um að vera stöðugt þú – sama hverjar aðstæðurnar eru.“
Hvað gerir þú á Sauðárkróki fyrir utan að spila körfubolta? „Ég elska að skoða bæinn og sjá nýja hluti. Ég eyði líka miklum tíma í að baka þegar ég er ekki að æfa eða spila körfubolta.“
Hvað hefur verið erfiðast við að vera á Íslandi? „Það erfiðasta við að vera hér er að hafa ekki fjölskylduna mína og fólkið mitt með mér,“ segir Maddie en í lokin má bæta því við að uppáhalds körfuboltaliðin hennar eru Chicago Bulls og Chicago Sky, mismunandi afbrigði af fiski er skrítnasti maturinn sem hún hefur borðað á Íslandi og þá er hún ánægð með íslenska súkkulaðið. „Ég borða allt sem ekki inniheldur lakkrís!“
.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.