Maddie með 52 framlagspunkta í sigri Stólastúlkna
Kvennalið Tindastóls hóf leik í 1. deild kvenna í körfubolta nú undir kvöld. Stelpurnar heimsóttu þá sameinað lið Hamars og Þórs Þ. og var spilað í Hveragerði. Lið Tindastóls fór vel af stað en heimastúlkur svöruðu fyrir sig í öðrum leikhluta og voru tveimur stigum yfir í hálfleik. Í þriðja leikhluta gekk allt upp hjá liði Tindastóls sem náði góðu forskoti og sigraði leikinn örugglega 76-89.
Það var Ingibjörg Fjóla sem gerði fyrstu stig Stólastúlkna á þessu keppnistímabili og gestirnir náðu fljótlega ágætri forystu, 6-12. Heimastúlkur jöfnuðu 16-16 en góðar körfur frá Maddie, Evu Rún og Ksenju tryggðu 17-24 forystu eftir fyrsta leikhluta. Heimaliðið hóf annan leikhluta af krafti og komst yfir, staðan 30-26 þegar leikhlutinn var hálfnaður og mest náðu þær átta stiga forystu. Maddie og Eva löguðu stöðuna fyrir hlé en staðan í hálfleik var 40-38.
Jafnræði var með liðunum fyrstu mínútur þriðja leikhluta en síðustu sjö mínúturnar gerðu Stólastúlkur 21 stig en lið Hamars/Þórs átta og staðan því 59-72 fyrir lokaleikhlutann. Heimastúlkur náðu að minnka muninn í sex stig en karfa frá Telmu setti fyrir lekann og Stólastúlkur náðu í kjölfarið góðum kafla og gerðu út um leikinn.
Madison Anne Sutton átti afbragðsleik fyrir lið Tindastóls; gerði 35 stig, hirti 22 fráköst og átti tíu stoðsendingar. Hún setti niður öll 13 vítin sem hún tók í leiknum og var með 52 í framlag! Eva Rún gerði 24 stig. Þá átti Ksenja Hribljan fínan leik en hún skilaði 14 stigum, sex fráköstum og sex stoðsendingum. Ingibjörg Fjóla gerði sjö stig.
Fín byrjun hjá Jan Bezica og stúlkunum hans. Næsti leikur er í Síkinu næstkomandi laugardag en þá mæta sterkar ÍR-stúlkur til leiks.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.