Lokaleikur Stólastúlkna áætlaður 8. nóvember 2020
Þá hefur KSÍ sett upp leikjaplan fyrir lokaumferðir Íslandsmótsins í knattspyrnu sem stefnt er á að fram fari í nóvember. Síðasta umferðin í Pepsi Max deild karla á að fara fram 30. nóvember en fjórum umferðum er ólokið í þeirri deild. Áætlað er að Stólastúlkur spili síðasta leik sinn í Lengjudeildinni sunnudaginn 8. nóvember kl. 14:00 á Króknum en Stólapiltar spila í 3. deildinni á Vopnafirði 7. nóvember og gegn Sandgerðingum hér heima laugardaginn 14. nóvember.
Strákarnir eru, eftir því sem Feyki sýnist á stigatöflunni, enn í fallhættu og varla nema eitt hjól undir bílnum þegar síðasti rúnturinn verður tekinn. Það yrði þó einstök óheppni ef önnur úrslit féllu þannig að Stólarnir færu niður í 4. deild.
Það er meiri hamingja í herbúðum Stólastúlkna sem ættu að geta tekið við bikar fyrir glæstan sigur í Lengjudeildinni að loknum síðasta leik hér heima – ef það verður þá fært milli landshluta. Verra er þó að könutríóið okkar nær ekki leiknum að öllu óbreyttu þar sem þær eiga að vera farnar heim fyrir leik. Samkvæmt upplýsingum Feykis eru þær þó verulega spenntar fyrir því að spila síðasta leikinn og er verið að skoða möguleikana í stöðunni.
Þá er enn alls óvíst að grænt ljós verði gefið á fótboltaleiki í nóvember þó að líkurnar hafi ekki minnkað síðustu daga eftir heldur jákvæðari fréttir af baráttunni við COVID-19.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.