Lið Tindastóls í sjötta sæti eftir fyrri umferð Íslandsmótsins
Það var mikilvægur leikur í botnbaráttu Bestu deildar kvenna í gær en þá mættust lið Keflavíkur og Tindastóls í sannkölluðum sex-stiga-leik. Pakkinn í kjallara deildarinnar er þéttur og fyrir leik munaði einu stigi á liðunum, Stólastúlkur með sjö stig en heimastúlkur sex. Þegar til kom var lið Tindastóls mun sterkari aðilinn og skapaði sér mýmörg færi og Jordyn nýtti tvö þeirra og drógu Stólastúlkur því þrjú stig með sér heim í heiðardalinn.
Leikið var við ágætar aðstæður í Keflavík á góðum grasvelli. Gestirnir fóru vel af stað og hefðu hæglega getað verið komnar yfir eftir fimm mínútur. Þá var Jordyn búin að setja gott skot í þverslá og Birgitta búin að stinga hendur Veru Varis í markinu með góðu skoti á nærstöng. Vera átti eftir að standa í stórræðum í leiknum og varði nokkrum sinnum vel. Á 28. mínútu komust Stólastúlkur sanngjarnt yfir og það eftir hornspyrnu. Laufey sendi fyrir frá hægri og Jordyn kom á ferðinni og stangaði boltann í nærhornið. Lið Keflavíkur komst meira inn í leikinn eftir þetta og Monica mátti hafa sig alla við til að verja frá Melanie á markteignum. Skömmu fyrir hlé var Elísa Bríet nálægt því að tvöfalda forystuna en þá átti hún fínan skalla en Vera varði í horn.
Meira jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik en Stólastúlkur virtust sjaldnast í alvöru vandræðum í vörninni á sama tíma og tilfinningin var sú að annað mark gæti dottið hjá Jordyn á hverri mínútu. Hún var virkilega góð í leiknum og sóknarleikur Tindastóls á löngum köflum býsna góður. Eftir hornspyrnu Stólastúlkna komu Keflvíkingar boltanum frá og skyndilega var Saoria sloppin ein inn fyrir við miðlínu. Mögulega var hún rangstæð en ekkert dæmt og hún brunaði í átt að marki með fimm metra forskot á Birgittu og tíu metra á Gwen. Þýska varnarséníið okkar setti þá í fluggírinn og þegar Saoria var komin inn í teig og skaut að marki, renndi Gwen sér fyrir boltann og bjargaði meistaralega. Geggjað!
Heimastúlkur reyndu að jafna leikinn og færðu liðið sitt framar en við það myndaðist pláss fyrir aftan og það nýttu Stólastúlkur sér á 84. mínútu. Sóknin hófst á því að Monica greip vel inn í eftir sókn heimastúlkna, kom boltanum strax í leik, Elísa Bríet fékk boltann inni á vallarhelmingi Keflavíkur og sendi frábæra sendingu inn fyrir á Jordyn sem skoraði af öryggi framhjá Veru í markinu. Á lokamínútu leiksins gerðu heimastúlkur harða hríð að marki Tindastóls sem vörðu á línu og Monica var pottþétt í markinu.
Stólastúlkur ferðast vel
Mikilvæg þrjú stig í sarpinn hjá Stólastúlkum sem enda þar með fyrri umferð Íslandsmótsins í sjötta sæti – hefðu verið í fimmta ef Blikar hefðu ekki mætt bógí-liðinu sínu, Víkingum, kvöldið áður. Það er ansi þéttur pakki í neðri hluta deildarinnar og því gríðarsterkt að vinna Keflavík í Keflavík (o.s.frv.). Lið Tindastóls átti fínan leik og stóðu allir leikmenn sína vakt vel en þó má taka þær Jordyn, Elísu, Gwen og Monicu út fyrir sviga. Þær voru virkilega góðar.
Að leik loknum kvartaði Glenn, þjálfari Keflavíkur, undan því að lið sitt væri mjög ungt og hann hefði þurft að spila á mörgum 3. flokks stúlkum. Sannarlega er mikið um meiðsli hjá liði hans en í byrjunarliðunum voru jafn margir 3. flokks leikmenn eða tveir í hvoru liði. Í viðtali við Fótbolti.net að leik loknum skaut Bryndís Rut fyrirliði aðeins á liðin fyrir sunnan sem kvarta oft undan því að þrufa að keyra í nokkra tíma norður á Krók og nota oft sem ástæðu fyrir því að fara ekki með öll stigiin með sér heim. Góður punktur hjá Bryndísi enda er þetta í raun hlægilegt nöldur því lið Tindastóls og Þórs/KA þurfa að fara langt í alla sína útileiki á meðan liðin fyrir sunnan ferðast langt tvisvar á sumri. Bryndís sagði sitt lið ferðast vel, gaman í rútunni bæði fyrir og eftir leik. – Sennilega spurning um hugarfar.
Staðan betri en í fyrra að lokinni fyrri umferð Bestu deildarinnar
„Þetta var góður leikur hjá stelpunum og ég er mjög ánægður með heildar frammistöðuna. Tvö frábær mörk og að halda hreinu er alveg frábært,“ sagði Donni við Feyki að leik loknum. „Við náðum upp mjög flottu spili lang stærstan hluta af fyrrir hálfleiknum og stjórnuðum honum vel. Við komumst vel í veg fyrir þeirra helsta styrkleika og svo mark eftir fast leikatriði er eitthvað sem við höfum verið að bíða eftir og er frábært,“ sagði Donni en fyrra markið hjá Jordyn var fyrsta mark Tindastóls úr föstu leikatriði í sumar en þau hafa gefið vel síðustu sumar. „Nú er helmingurinn liðinn af mótinu og við með tíu stig sem er tveimur betra en á sama tíma í fyrra svo við erum mjög glöð með það.“
Jordyn var ansi öflug í leiknum, finnst þér hún verða betri og betri með hverjum leiknum? „Jordyn er frábær leikmaður sem leggur sig alla fram fyrir liðið. Hún skapar og fær færi í öllum leikjum og frábært þegar þau detta inn í markið,“ sagði Donni að lokum en Jordyn er nú komin með fimm mörk í deild og eitt í bikarnum.
Næsti leikur Tindastóls er á miðvikudaginn en þá mæta stelpurnar liði FH sem rændi sigrinum í fyrstu umferð. FH er í fjórða sæti deildarinnar með 13 stig en Stólastúlkur eru skammt undan með tíu stig. Koma svo!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.