Lið Kormáks/Hvatar komið í undanúrslitin í 4. deild

Leikmenn Kormáks/Hvatar fagna góðum sigri á liði KÁ. MYND AF FACEBOOK
Leikmenn Kormáks/Hvatar fagna góðum sigri á liði KÁ. MYND AF FACEBOOK

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar er aftur komið í undanúrslit í úrslitakeppni 4. deildar eftir að hafa lagt Hafnfirðingana í KÁ að velli á Blönduósi í gær. Oliver Torres gerði eina mark leiksins strax á 6. mínútu og þar við sat þrátt fyrir mikla baráttu. Húnvetningarnir mæta öðru liði úr Hafnarfirði í undanúrslitum, ÍH, og verður fyrri leikur liðanna á Blönduósvelli nú á laugardaginn.

„Leikurinn var mjög flottur af okkar hálfu,“ segir Bjarki Már Árnason, þjálfri K/H, í spjalli við Feyki nú í morgun. „Það sem við lögðum upp með fyrir leikinn gekk fullkomlega upp og lið KÁ átti fá svör við því. Bara virkilega stoltur af leikmönnunum mínum sem vorum afskaplega flottir í gær. Þetta var klárlega sigur liðsheildarinnar.“ 

Lið Kormáks/Hvatar komst í undanúrslitin í fyrra líka en féll fyrir fótum leikmanna Ægis úr Þorlákshöfn. Hvernig lýst þér á að mæta liði ÍH í undanúrslitum og möguleikann á að komast upp í 3. deild? „Það bíður okkar verðugt verkefni, það er óhætt að segja það, en ég hef óbilandi trú á mínu liði. Ef við stöndum saman í þessu allir sem einn þá eru okkur flestir vegir færir. Þetta eru náttúrulega tveir hörkuleikir þar sem við þurfum að sýna okkar bestu hliðar og ef við gerum það þá eigum við góðan séns.

Einhver skilaboð að lokum? „Við byrjum á heimaleiknum sem er næstkomandi laugardag kl.14 og þá biðla ég til fólks að fjölmenna á völlinn og styðja almennilega við liðið.“

Áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir