Lið Keflavíkur gerði eina markið á Króknum

Kristrún átti enn einn stórleikinn í kvöld. MYND: ÓAB
Kristrún átti enn einn stórleikinn í kvöld. MYND: ÓAB

Það var hart barist í kvöld á Sauðárkróksvelli þegar lið Tindastóls tók á móti Keflvíkingum í miklum fallbaráttuslag. Stólastúlkur þurftu nauðsynlega að vinna leikinn til að koma sér úr botnsætinu og auka möguleika sína á að halda sæti sínu í Pepsi Max deildinni. Eina mark leiksins kom snemma og það voru gestirnir sem gerðu það og fóru langt með að tryggja sæti sitt í efstu deild. Lokatölur 0-1 og staða Tindastóls orðin strembin svo ekki sé meira sagt.

Aðstæður voru fínar, hlýtt og sunnangola með stöku rigningarslettum. Leikurinn fór fjörlega af stað, liðin spiluðu boltanum vel og augljóst að bæði lið langaði í sigur. Murr átti tvö ágæt skot að marki gestanna en eftir níu mínútna leik fékk lið Keflavíkur hornspyrnu eftir smá misskilning í vörn Tindastóls. Boltinn var sendur inn á markteig þar sem hann var framlengdur á nærstöng og þar féll hann fyrir hægri fótinn á Aerial Chavarin sem negldi boltanum upp í netmöskvana. Lið Tindastóls brást vel við mótlætinu og sótti töluvert að marki gestanna sem voru þó skeinuhættir í sínum sóknaraðgerðum. Heimastúlkur fengu sennilega tólf hornspyrnur í fyrri hálfleik en gestirnir vörðust af miklum móð og gáfu fá færi á sér. Litlu mátti þó muna að Jackie jafnaði metin eftir hálftíma leik þegar hún átt frábæra aukaspyrnu sem small í þverslánni og þaðan skaust boltinn í Lauru og aftur fyrir endamörk. Keflvíkingar komu boltanum í mark Tindastóls eftir laglega aukaspyrnu fimm mínútum síðar en voru rangstæðar.

Tindastólsstúlkur mættu snemma til leiks í síðari hálfleikinn og augljóslega ákveðnar í að jafna sem fyrst. Þrátt fyrir þunga pressu og mikil hlaup þá uppskáru heimastúlkur ekki neitt. Lið Keflavíkur kom boltanum enn og aftur í markið hjá Amber á 53. mínútu en markið var dæmt af vegna brots í teignum. Eftir þetta færðu gestirnir lið sitt framar á völlinn og nokkuð dró af Stólastúlkum sem gekk nú illa að spila boltanum upp völlinn. Það var því farið í að negla fram á Murr en það hefur ekki gefist jafn vel í Pepsi Max deildinni eins og í Lengjudeildinni og uppskeran var rýr. Líf færðist þó í leik Stólastúlkna þegar Aldís og Dom komu inn á og átti Aldís tvær ljómandi sendingar fyrir mark gestanna sem sköpuðu hættu. Næst komust stelpurnar því að jafna þegar þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Laura fékk boltann á auðum sjó utarlega í teignum, átti fína móttöku og reyndi að lyfta honum í fjærhornið en tuðran datt ofan á þverslána og aftur fyrir. Hættulegustu færin á lokamínútunum voru síðan gestanna en Amber varði í tvígang glæsilega.

Afar svekkjandi tap því staðreynd og markið óþarfi en reyndar ekki í fyrsta sinn sem andstæðingar Tindastóls skora á nærstöng eftir hornspyrnu. Í raun hefði sigurinn geta fallið hvorum megin sem var og jafntefli sennilega verið sanngjörn úrslit. Liðin hafa hins vegar mæst tvívegis í sumar og Keflvíkingar haldið markinu hreinu í bæði skiptin og eitt mark dugað til sigurs. Stólastúlkur spiluðu boltanum betur og meira en oftast í sumar en gæðin vantaði í úrslitasendingarnar.

Nú eiga stelpurnar eftir að spila tvo leiki og eru neðstar í deildinni. Ekkert annað en sigur í báðum leikjunum mun duga og ekki einu sinni víst að það dugi. Það er því ekkert annað í stöðunni fyrir Stólastúlkur en að mæta sjúllaðar á Selfoss í næstu umferð og berjast til síðasta blóðdropa.

- - - -

P.S. Það má ekki klikka í leikslok að liðið þakki stuðningsmönnum fyrir mætinguna og klappi aðeins með þeim. Þó að skiljanlega hafi stelpurnar verið drullusvekktar þá var stuðningurinn fínn í kvöld og gott að geta klappað og fengið klapp. 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir