Lið Húnvetninga tryggði sætið í 3. deildinni með öruggum sigri
Síðasta umferðin í 3. deildinni í knattspyrnu fór fram á laugardaginn. Lið Kormáks/Hvatar var í tæknilegri fallhættu því ef allt færi á langversta veg þá átti lið Vængja Júpíterst möguleika á að skríða upp fyrir Húnvetningana. Svo fór að sjálfsögðu ekki því K/H tók völdin gegn liði KH strax í byrjun leiks og endaði í níunda sæti 3. deildar þegar upp var staðið. Lokatölur í leik þeirra gegn botnliði KH voru 3-0.
Leikið var á Blönduósvelli og það var nokkuð ljóst að heimamenn, sem höfðu tapað átta leikjum í röð í deildinni, urðu að setja fyrir lekann. Byrjunin lofaði góðu því Ingvi Rafn kom sínum mönnum yfir eftir fimm mínútna leik og Benjamín Jóhannes (Benni) skrúfaði fyrir alla taugaveiklun með því að bæta við öðru marki heimamanna fjórum mínútum síðar en það var hans fyrsta mark í sumar. Það var síðan á 71. mínútu sem Goran Potkozarac gerði þriðja og síðasta mark leiksins.
Það var ljóst fyrir leikinn að KH var fallið en sem fyrr segir áttu Vængir Júpiters séns á að komast upp fyrir Húnvetninga. Lið Kormáks/Hvatar þurfti þá að tapa stórt og Vængirnar að vinna stórt en átta marka sveiflu þurfti til að þessi staðan yrði uppi á teningunum. Sókn Vængjanna gerði sitt besta, liðið gerði sjö mörk í Eyjum gegn liði KFS, en vörnin var ekki eins spræk því leikurinn í Eyjum endaði 6-7 fyrir Vængi Júpiters. Þessar reikningskúnstir reyndust hins vegar algjör tímasóun því Húnvetningar kláruðu sitt af öryggi.
Lið Kormáks/Hvatar verður því áfram með í 3. deildinni næsta sumar. Í spá sérfræðinga hjá Fótbolta.net í byrjun tímabils var Húnvetningum spáð 11. sæti og þar með falli. Reyndar hittu sérfræðingar ekki á hvaða lið féllu eða fóru upp þannig að það er spurning hvort þeir haldi sérfræðinganafnbótinni. Það fór svo að Sindri endaði sem sigurvegari 3. deildar eftir 8-2 mulning á liði ÍH því liði Dalvíkur/Reynis tókst aðeins að gera 2-2 jafntefli á heimavelli gegn Augnabliki. Bæði Sindri og D/R enduðu með 47 stig. Stórtap ÍH olli því að það færðist niður fyrir Kormák/Hvöt á markatölu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.