Leikmenn Kormáks/Hvatar á eldi ... í Húnaþingi

Lið Kormáks/Hvatar í gær. MYND AF FACEBOOK
Lið Kormáks/Hvatar í gær. MYND AF FACEBOOK

Lið Kormáks/Hvatar og Vatnalilja mættust í 11. umferð D-riðils 4. deildar á Hvammstanga í gær og má segja að heimamenn hafi verið á eldi – gerðu fimm mörk án þess að gestirnir úr Kópavogi gætu svarað fyrir sig. Önnur úrslit urðu til að bæta enn stöðu Húnvetninga í baráttunni um sæti í úrslitakeppni.

Heimamenn höfðu yfirburði allan leikinn. Ingvi Rafn þjálfari kom sínum mönnum yfir strax á 10. mínútu og markahrókurinn George Chariton bætti við marki á 24. mínútu og átti eftir að enda leikinn með þrennu í pokahorninu. Ingvi bætti við sínu öðru marki á 28. mínútu og staðan 3-0 í hálfleik. Á lokakafla leiksins bætti Chariton við tveimur mörkum; því fyrra á 85. mínútu og því síðara á þriðju mínútu uppbótartíma. Það eina sem gestirnir uppskáru voru fjögur gul spjöld.

Kormákur/Hvöt eru nú í öðru sæti D-riðils með 27 stig en helstu keppinautar þeirra um sæti í úrslitakeppninni, Hvíti riddarinn, hafði áður leikið við topplið riðilsins, Vængi Júpiters. Riddararnir fóru vel af stað og komust í 0-2 eftir um hálftíma leik. Vængirnir minnkuðu muninn fyrir hlé og gerðu síðan þrjú mörk í síðari hálfleik. VJ eru því í toppsæti D-riðils með 30 stig og ólíklegt að þeim förlist í síðustu umferðum riðlakeppninnar. Nú munar hins vegar fimm stigum á Kormáki/Hvöt og Hvítu riddurunum og ólíklegt að það bil verði brúað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir