Laura og Nadín styrkja lið Stólastúlkna

Laura og Nadín verða vonandi klárar í næsta leik.
Laura og Nadín verða vonandi klárar í næsta leik.

Knattspyrnudeild Tindastóls hefur samið við tvo leikmenn um að spila með Stólastúlkum út tímabilið. Um er að ræða Nadejda Colesnicenco, 25 ára landsliðskonu Moldóva, og Laura Rus en sú síðarnefnda er landsliðsmaður Rúmeníu, 33 ára og hefur verið aðalframherji Rúmena í áratug að sögn Óskars Smára Haraldssonar í þjálfarateymi Tindastóls. Hann segir að þær séu væntanlegar til landsins á morgun, báðar bólusettar, komnar með leikheimild og ættu að mæta á sína fyrstu æfingu á föstudaginn.

Nadejda Colesnicenco, sem er vinkona Lauru, er miðjumaður og landsliðsmaður Moldovíu. Laura, sem eins og fyrr segir er framherji, er afar spennandi leikmaður en hún var í hópi þeirra leikmanna sem voru tilnefndir sem besti leikmaður í heimi árið 2018. Hún hefur spilað víða á 17 ára ferli, þar á meðal í Rúmerníu, á Spáni, í Danmörku, Suður-Kóreu, Belgíu og á Ítalíu. Þær koma báðar til liðs við Tindastól frá Fortunei Becicherec í Ungverjalandi en þar var tímabilið að klárast.

Óskar Smári segir að þjálfurum Tindastóls lítist vel á þær stöllur. „Rus hefur spilað út um allan heim og skorað mörk alls staðar þar sem hun spilar. Colesnicenco er fjölhæfur miðjumaður sem við erum einnig mjög spenntir að sjá hvernig kemur út. Hún hefur verið, rétt eins og Rus, lykilmaður síðustu ára fyrir sitt landslið. Þær koma inn til að styrkja hópinn okkar, sem var sterkur fyrir, og erum við eins og ég sagði hér áður mjög spenntir fyrir þeim,“ segir Óskar.

Þjálfarar og stjórn vilja koma á framfæri þökkum til umboðsmanns þeirra, Alberto Larrea, fyrir gott samstarf í ferlinu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir