Laufey Harpa skiptir yfir í lið Breiðabliks

Takk fyrir Laufey Harpa og gangi þér vel! MYND: ÓAB
Takk fyrir Laufey Harpa og gangi þér vel! MYND: ÓAB

Stólastúlkan frábæra, Laufey Harpa Halldórsdóttir, hefur ákveðið að söðla um eftir sex ár með meistaraflokki Tindastóls í fótboltanum og skrifað undir tveggja ára samning við Breiðablik sem er eitt af sterkustu kvennaliðum landsins. Laufey Harpa á að baki 119 leiki með liði Tindastóls þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gömul og í þeim hefur hún skorað 11 mörk en hún spilar jafnan í stöðu vinstri bakvarðar en stundum framar á vellinum.

Laufey er bæði fljót og sterk, áræðin og með bísna beittan vinstri fót. Það verður spennandi að fylgjast með henni í Pepsi Max næsta sumar þó sannarlega sé sárt að sjá á eftir henni úr liði Tindastóls þar sem hún sýndi fádæma stöðugleika í sínum leik.

Í frétt á Fótbolti.net, þar sem greint er frá félagaskiptunum, er rifjað upp að Laufey Harpa var í liði ársins þegar Tindastóll tryggði sér sæti í efstu deild haustið 2020 og nú fyrr á árinu var hún valin í æfingahóp A-landsliðsins, en hún á að baki leiki með yngri landsliðum Íslands.

Laufey Harpa ku hafa farið með Blikum til Parísar í síðustu viku og æfði þar með liðinu fyrir leikinn gegn stórliði PSG í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Fyrir hitti hún aðra Stólastúlku en Vigdís Edda Friðriksdóttir spilar sem kunnugt er með liði Blika og hefur gert sl. tvö sumur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir