Laufey Harpa Halldórsdóttir fékk farandbikar Stefáns og Hrafnhildar
Í gær var Laufeyju Hörpu Halldórsdóttur, fótboltakonu á Sauðárkróki, veittur farandbikar og skjöldur til minningar um Stefán Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupfélags Skagfirðinga, og konu hans Hrafnhildi Stefánsdóttur. Bikarinn var fyrst veittur fyrir um áratug og hefur sú athöfn farið fram jafnhliða úthlutun menningarstyrkja Kaupfélags Skagfirðinga.
Vegna Covid ástands var fólki ekki stefnt saman á síðasta ári frekar en nú og frestaðist að afhenda bikarinn. Nú var hins vegar ákveðið að bíða ekki lengur og afhenda viðurkenninguna í látlausri athöfn í húsnæði KS á Ártorgi.
Í greinargerð viðurkenningarinnar segir:
„Laufey Harpa Halldórsdóttir er fædd árið 2000. Hún var ekki gömul þegar hún byrjaði að æfa knattspyrnu með liði Tindastóls. Hún vakti snemma athygli og það var ljóst að þar var á ferð góð íþróttakona. Laufey hefur þroskast vel sem knattspyrnukona og hefur að undanförnum árum spilað stórt hlutverk í liði Tindastóls. Á síðasta tímabili var hún í liði m.fl. kvenna sem vann sér keppnisrétt í efstu deild kvenna, Pepsí Max deildinni. Laufey var þar ein af burðarásum liðsins.“
Þetta er vitaskuld ársgömul upptalning og ýmislegt sem hefur breyst. Stelpurnar í Tindastól búnar að leika í deild hinna bestu og Laufey Harpa búin að skipta um félag þar sem hún mun leika með Breiðablik á næstu leiktíð.
„Það er mikilvægt að breyta til og taka þau tækifæri sem bjóðast þannig að það eru mjög spennandi tímar framundan,“ segir Laufey sem væntanlega fer suður um miðjan janúar. Hún stundar nú nám í kennarafræðum í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri. Hún segir það hafa verið mjög erfitt að kveðja uppeldisfélagið og heimabæinn en ákveðið að taka skrefið og reyna sig á öðrum miðum. „Ég hlakka samt til að fylgjast með Tinastól í sumar og vona að þeim gangi vel!“
Það voru þeir bræður Ómar Bragi og Stefán Vagn sem veittu Laufeyju viðurkenninguna sem kennd er við foreldra þeirra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.