Ksenja yfirgefur herbúðir Stólastúlkna í körfunni
Í yfirlýsingu frá stjórn körfuknattleiksdeildar Tindastóls, sem Feyki barst nú í morgun, segir að stjórnin og Ksenja Hribljan, slóvenskur leikmaður kvennaliðsins, hafi komist að samkomulagi um að Ksenja yfirgefi Tindastól vegna persónulegra aðstæðna. Stjórn þakkar Ksenju fyrir sitt framlag til liðsins og óskar henni alls hins besta í framtíðinni.
Ksenja, sem er tvítug, kom til liðs við kvennalið Tindastóls frá Slóveníu í haust og hefur leikið í stöðu leikstjórnanda og staðið sig með ágætum. Hún lék níu leiki með liði Tindastóls og gerði í þeim 16,2 stig að meðaltali og tók fimm fráköst sömuleiðis að meðaltali. Hún var í öðru sæti í 1. deildinni yfir stoðsendingar eða 6,1 stykki per leik.
Ljóst er að það er skarð fyrir skildi hjá liði Tindastóls enda liðið að stórum parti skipað mjög ungum leikmönnum sem eru að feta sín fyrstu spor í meistaraflokki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.