Ksenja Hribljan til liðs við Stólastúlkur í körfunni

Ksenja og Maddie ásamt Jan Bezica þjálfara Tindastóls. Á myndunum fyrir neðan skrifar Telma undir samning og þá er einnig mynd af æfingahópin kvennaliðsins. MYNDIR: TINDASTÓLL
Ksenja og Maddie ásamt Jan Bezica þjálfara Tindastóls. Á myndunum fyrir neðan skrifar Telma undir samning og þá er einnig mynd af æfingahópin kvennaliðsins. MYNDIR: TINDASTÓLL

Eftir slitrótt tímabil á Covid-plöguðum körfuboltavetri þá hefst dripplið óvenju snemma þetta haustið en bæði karla- og kvennalið Tindastóls verða í eldlínunni nú eftir helgi. Bæði taka þau þátt í VÍS-bikarnum sem er þegar farinn í gang. Áður hefur Feykir greint frá því að hin bandaríska Maddie Cannon muni spila með kvennaliðinu og nú hefur Ksenja Hribljan frá Slóveníu bæst í hópinn.

Fjórar stúlkur yfirgáfu lið Tindastóls í sumar og gengu til liðs við Þór Akureyri, þrjár stúlknanna hafa verið fastamenn í byrjunarliði Tindastóls síðustu tvö tímabil og munar því um minna og nokkuð ljóst að styrkja þurfti liðið fyrir átök vetrarins. Ksenja á leiki fyrir U18 lið Slóveníu en hún er bakvörður, 168 sm á hæð og tvítug. Hún kemur frá liði Maribor þar sem hún hefur spilað síðan árið 2017. Hún og Maddie skrifuðu undir árssamning við lið Tindastóls í dag og þá setti fyrirliði Tindastóls, Telma Ösp Einarsdóttir, einnig sitt nafn á samning.

Stelpurnar eiga leik í VÍS-bikarnum nú strax á mánudaginn og er leikið syðra. Eftir því sem Feykir kemst næst er Eva Rún komin á ferðina og til í slaginn eftir veikindin í vor. Þá munu allir leikmenn karlaliðsins vera mættir til leiks en strákarnir eiga heimaleik í Síkinu á þriðjudaginn en þá koma Pálmi Þórs og félagar hans í liði Álftaness í heimsókn á Krókinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir