Kormákur/Hvöt lutu í lægra haldi í Eyjum

Það var leikið í 3. deildinni í knattspyrnu í dag en Húnvetningar héldu þá til Eyja og léku við heimamenn í KFS á Týsvelli. Eyjapiltarnir komust yfir snemma leiks en það var hasar í lokin en KFS stóð uppi sem sigurvegari eftir 2-1 sigur.

Víðir Þorvarðarson kom KFS yfir eftir sjö mínútna leik, ólöglegt mark að mati fréttamanns á aðdáendasíðu Kormáks. Skömmu fyrir hlé var Aliu Djalo sendur í sturtu, hafði fengið að líta gula spjaldið á 39. mínútu en virðist síðan hafa fengið beint rautt á annarri mínútu í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Ekki gáfust Húnvetningar þó upp því heimamaðurinn Kristinn Bjarni Andrason jafnaði metin á 76. mínútu eftir að hafa potað boltanum í mark KFS eftir mistök hjá markverðinum. Eyþór Orri Ómarsson skallaði boltann hins vegar í mark Kormáks/Hvatar sex mínútum síðar og ekki náðu gestirnir að jafna metin þó dómari leiksins hefði jafnað í liðunum þegar skammt var eftir. Gróf brot og almenn leiðindi einkenndu leikinn samkvæmt færslu á aðdáendasíðunni góðu.

Þriðja tap Húnvetninga í röð því staðreynd og liðið nú komið í níunda sæti 3. deildar eftir að hafa sólað sig á efri hluta stigatöflunnar fyrir verslunarmannahelgina. Næstkomandi laugardag kemur lið Víðis í heimsókn á Blönduósvöll en piltarnir úr Garðinum eru í toppbaráttunni og munu eflaust gefa heimamönnum hörkuleik.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir