Kormákur/Hvöt komnir á toppinn að nýju

Það er harka í 4. deildinni. Bjarki segir að það hafi verið allt í lagi með sig og engin ástæða til að fara af velli. Hér er hann ásamt Óðni Smára Albertssyni (t.v.) og megin Hámundi Erni Helgasyni að leik loknum. MYND AF FACEBOOK
Það er harka í 4. deildinni. Bjarki segir að það hafi verið allt í lagi með sig og engin ástæða til að fara af velli. Hér er hann ásamt Óðni Smára Albertssyni (t.v.) og megin Hámundi Erni Helgasyni að leik loknum. MYND AF FACEBOOK

Í gær fór fram hörkuleikur í Egilshöllinni í Grafarvogi þar sem Björninn tók á móti liði Kormáks/Hvatar. Var þetta tíundi leikur liðanna í B-riðli 4. deildar en flest liðin eiga nú eftir að spila tvo leiki. Með sigri var toppsætið gestanna og það var einmitt það sem gerðist, Húnvetningarnir reyndust sterkari og unnu leikinn 1-2.

Markalaust var að loknum fyrri hálfleik en fyrirliði gestanna, Ingvi Rafn Ingvarsson, kom sínum mönnum yfir á 50. mínútu. Það tók liðsmenn Bjarnarins níu mínútur að jafna metin en þar var á ferðinni Sólon Ingason. Það var síðan á 87. mínútu sem Hilmar Kára gerði sigurmark leiksins og sætur sigur því staðreynd og Kormákur/Hvöt á toppnum.

Það er fátt sem kemur í veg fyrir að Húnvetningar komist í úrslitakeppni 4. deildar en liðið á eftir að spila við SR úti og Stokkseyri á Blönduósvelli. „Þetta var hörkuleikur og örugglega mjög skemmtilegur á að horfa en við vorum sterkari og þá sérstaklega í seinni hálfleik,“ sagði Bjarki Már Árnason, þjálfari gestanna, í spjalli við Feyki. Eins og sjá má á myndinni með fréttinni þá fékk Bjarki smá skell í leiknum, en hann og einn leikmaður Bjarnarins skölluðu saman. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir