Kormákur/Hvöt áfram í fjögurra liða úrslit
Seinni leikirnir í átta liða úrslitum 4. deildar karla í knattspyrnu fóru fram í kvöld. Lið Kormáks/Hvatar hafði unnið fyrri leikinn gegn liði Álftaness 1-0 sl. föstudag og þurfti því helst að ná jafntefli eða sigra á Álftanesi í kvöld til að tryggja sætið í fjögurra liða úrslitum. Það gekk eftir því leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli og eftir úrslit kvöldsins er ljóst að Húnvetningar þurfa að skreppa í Hveragerði á föstudaginn þar sem Hamarsmenn bíða eftir þeim.
Samkvæmt heimildum Feykis var þetta mikill baráttuleikur á OnePlus-vellinum á Álftanesi í kvöld. Mörkin tvö komu seint en það var Akil DeFreitas sem gerði markið mikilvæga á 88. mínútu og tryggði liði Kormáks/Hvatar farseðilinn í Hveragerði. Álftnesingar jöfnuðu metin þegar rúmar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma en það dugði skammt. Vel að verki staðið hjá Ingva Rafni þjálfara K/H og liðsmönnum hans sem fögnuðu innilega í leikslok ásamt dyggum stuðningsmönnum sínum sem sóttu leikinn.
Fyrri leikurinn í fjögurra liða úrslitum fer fram sem fyrr sagði í Hveragerði föstudaginn 3. september og hefst kl. 17:30. Seinni leikurinn verður því væntanlega spilaður á Blönduósi nk. þriðjudag. Þetta er þriðja árið í röð sem lið Kormáks/Hvatar fer í úrslitakeppnina og eftir því sem Feykir kemst næst er þetta í fyrsta sinn sem seinni leikur í úrslitakeppninni fer fram á heimavelli Húnvetninga.
Úrslit annarra leikja voru þau að Hamar sigraði lið Kríu 1-3 á útivelli og Vængir Júpiters sló út lið Árborgar með því að sigra 2-1 á heimavelli sínum. Þega fréttin er skrifuð var staðan jöfn í leik KH og Ýmis en fyrri leikur liðanna endaði með jafntefli.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.