Kormákur/Hvöt á sigurbraut í fjórðu deildinni

Mynd: Aðdáendasíða Kormáks/Hvatar.
Mynd: Aðdáendasíða Kormáks/Hvatar.

Kormákur/Hvöt lagði leið sína í Fagralundinn í Kópavogi Laugardagskvöldið 5. Júní sl. þar sem að lið Vatnalilja tók á móti þeim í D-riðli 4. Deildarinnar. Leikurinn endaði 1:2 fyrir Kormák/Hvöt. Það var spánverjinn George Razyan Chariton sem skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Kormák/Hvöt með laglegu skoti á 13. mínútu. Enok Ingþórsson jafnaði metin fyrir Vatnaliljur á 25. mínútu og jafnt var því í leiknum þegar flautað var til hálfleiks.

Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik en á 67. mínútu dró til tíðinda þegar að Sigurður Bjarni Aadnegard fékk að líta sitt annað gula spjald á stuttum tíma og þar með rautt. Það hafði ekki mikil áhrif á húnvetningana að vera einum manni færri því að á 86. mínútu skoraði Arnar Þór Hafsteinsson fyrir Kormák/Hvöt og fleiri urðu mörkin ekki, 1:2 sigur Kormáks/Hvatar því staðreynd.

Kormákur/Hvöt hefur unnið þrjá leiki af fjórum það sem af er tímabilinu í fjórðu deildinni og því með níu stig í þriðja sæti deildarinnar, með jafnmörg stig og Vængir Júpíters sem sitja í öðru sæti, einu stigi á eftir Létti sem er í efsta sæti með 10 stig.

Að sögn ritstjórnar  Aðdáendasíðu Kormáks/Hvatar er liðið farið að smella vel saman og breiddin er meiri en áður.
„. Erlendur liðstyrkur hefur spartlað upp í þau göt sem spörtlunar hafa þurft við. Sigurleikir á móti erfiðum liðum í síðustu leikjum hafa verið einstaklega gefandi, þar sem liðið hefur stjórnað ferðinni en mörkin verið engu fleiri en þurft hefur til. Framundan eru svo nokkrir heimaleikir á Blönduósi, þeir fyrstu þetta árið.“

„Það er mál innmúraðra að riðill D í fjórðu deild sé sá jafnasti og sterkasti í manna minnum. Öll lið geta unnið næsta og barist er með kjafti og klóm fyrir hverju marki og stigi. Því er vel að Kormákur Hvöt hefur lokið við sirka helming útileikja sinna og bíður í ofvæni eftir að bjóða liðin heim í Húnavatnssýslur. Það er raunar svo að Kormákur Hvöt hefur ekki tapað í síðustu 23 heimaleikjum, sem er lang lengsta óslitna heimaleikjaruna á Íslandi. Framundan er birta í kortunum,“ segir á Aðdáendasíðu Kormáks/Hvatar.

Næsti leikur Kormáks/Hvatar er laugardaginn 12. júní á Blönduósi þar sem að þeir taka á móti liði KB úr Breiðholti klukkan 14:00.

/SMH

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir