Körfuboltadagur KKÍ á Blönduósi

Laugardaginn 16. október ætlar Körfuknattleikssamband Íslands að vera með körfuboltadag í íþróttamiðstöðinni á Blönduósi. Þar verða haldnar æfingar og farið í leiki með því markmiði að kynna körfuboltann fyrir krökkum á Blönduósi og nærsveitum.

Leikjanámskeiðið er fyrir krakka í 1. til 4. bekk og verður körfuboltinn hafður í forgrunni í bland við fjölbreytta og skemmtilega leiki. „Gleði og jákvæðni eru ein af einkunnarorðum okkar og markmiðið með leikjanámskeiðunum er að kynna körfuboltann fyrir krökkunum á svæðinu, spila, fara í ýmsa skemmtilega leiki of hafa gaman,“ segir í tilkynningu frá KKÍ.

Síðan eru æfingar fyrir alla krakka í 5. - 10. bekk þar sem áhersla verður lögð á að kynna íþróttina í gegnum einstaklingsmiðaðar æfingar, eins og sóknarhreyfingar, dripl, skot og sendingar sem miða að því að bæta tækni.

Sævaldur Bjarnason, þjálfari 18 ára landsliðs kvenna, stýrir æfingum og vonast hann til að sem flestir mæti en námskeiðið er frítt og ekki þarf að skrá sig fyrirfram, bara að mæta.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir