Konni og Luke í liði ársins

Konni og Luke með Covid-fagn. Fordy sáttur. MYND: ÓAB
Konni og Luke með Covid-fagn. Fordy sáttur. MYND: ÓAB

Það náðist að ljúka um það bil 20 umferðum í 3. deild karla í knattspyrnu í sumar og haust. Niðurstaðan eftir að KSÍ flautaði mótið af er sú að lið KV og Reynis Sandgerði fara upp í 2. deild en Álftanes og Vængir Júpiters falla í 4. deild. Tindastóll endaði hins vegar í sjöunda sæti með 25 stig, vann sex leiki, gerði sjö jafntefli og tapaði sjö leikjum. Í hlaðvarpsþættinum Ástríðunni var lið sumarsins valið.

Þrátt fyrir að lið Tindastóls hafi ekki náð aðstefndum árangri voru engu að síður tveir leikmenn liðsins valdir í lið sumarsins; þeir Konráð Freyr Sigurðsson og Luke Rae. Englendingurinn sýndi oft snilldartakta í sumar og endaði markahæstur í 3. deildinni með 16 mörk og hann lék alla leiki Tindastóls. Konni átti líka gott sumar í boltanum, var að mestu meiðslalaus og náði óvenju mörgum leikjum fyrir bragðið en kappinn hefur verið leiðinlega óheppinn með meiðsli í gegnum tíðina. Hann náði 19 leikjum og gerði í þeim fjögur mörk.

Einn Blönduósingur komst á bekkinn í liði ársins, Kristinn Justiniano Snjólfsson, sem átti góða leiki með liði Sindra á Höfn í sumar. Hornfirðingarnir enduðu í fimmta sæti 3. deildar með 28 stig eftir ágæta leiki á lokametrunum.

Sjá nánar á Fótbolti.net >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir