Knattspyrnuakademía FNV og Tindastóls stofnuð
Í dag var undirritaður samstarfssamningur milli Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og knattspyrnudeildar Tindastóls um rekstur knattspyrnuakademíu sem hefst í haust. Með fjölbreyttum og skipulögðum æfingum og bóklegum kennslustundum verður markvisst unnið að því að gera nemendum kleift að bæta sig bæði andlega og líkamlega.
Knattspyrnuakademían er ætluð nemendum FNV sem vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksmanna samhliða bóknámi og er boðið upp á fjórar námseiningar á önn í knattspyrnu. Nemendur þurfa að gangast undir strangar mætinga- og agareglur enda segir í samningnum að reglusemi og dugnaður sé undirstaða velgengni í íþróttum. Íþróttaakademían verður sniðin að báðum kynjum og munu nemendur sem ljúka námi með fullnægjandi hætti fá afhent skírteini því til staðfestingar við brautskráningu frá skólanum.
„Þetta er stór áfangi fyrir klúbbinn og skólann okkar og gerir okkur kleift að gera enn betur í uppeldisstarfinu og búa til flotta afreksíþróttamenn í knattspyrnu. Það er ljóst að FNV er að leggja mikinn metnað í Akademíuna með flottum bóklegum fögum sem nýtast íþróttafólki til að bæta sig, og við ætlum ekki að láta okkar eftir liggja og gera eins vel og hægt er í verklega þættinum,“ segir Bergmann Guðmundsson á fésbókarsíðu Tindastóls.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.