Klæjar í tærnar!

Hér er Haukur lengst til vinstri, síðan Maggi Helga og loks Konráð Freyr Sigurðsson sem verður aðstoðarþjálfari í sumar. MYND: TINDASTÓLL.IS
Hér er Haukur lengst til vinstri, síðan Maggi Helga og loks Konráð Freyr Sigurðsson sem verður aðstoðarþjálfari í sumar. MYND: TINDASTÓLL.IS

Nýlega kynnti knattspyrnudeild Tindastóls nýtt þjálfarateymi meistaraflokks karla í fótboltanum en þjálfari er Haukur Skúlason en honum til aðstoðar er Konráð Freyr Sigurðsson. Feykir sendi Hauki nokkrar spurningar og segir hann það leggjast vel í sig að taka við liði Tindastóls. „Ég hef ekki þjálfað núna í nokkur ár og get alveg viðurkennt að mig hefur alveg klæjað í tærnar stundum þegar ég hef verið að mæta á leiki hjá karla- og kvennaliðinu síðustu ár. Það er bara eitthvað svo geggjað að vinna fótboltaleiki þegar liðið hefur lagt vinnuna á sig hrein gleði!

Geta stuðningsmenn reiknað með einhverjum áherslubreytingum frá í fyrra? „Það verða einhverjar áherslubreytingar á liðinu. Við munum t.d ekki spila eftir sama leikkerfi og síðasta ár. Einnig þarf að spila sterkari varnarleik en liðið hefur lekið inn of mörgum mörkum síðustu misserin. Það er þó einnig margt gott sem unnið hefur verið með og viljum við t.d halda áfram að vera óhræddir að halda boltanum innan liðsins.“

Hvernig er staðan á hópnum og hvernig fannst þér liðið í æfingaleikjunum nú áður en skall á með ferskri Covid-pásu? „Staðan á hópnum er ágæt. Auðvitað er vont að geta ekki æft fótbolta núna en við nýtum tímann í þol- og styrktaræfingar í staðinn. Hvað leiki vetrarins varðar þá spilaði liðið fyrstu þrjá leikina í Lengjubikarnum eftir leikkerfi og hugmyndum fyrri þjálfara og því kannski ekki of mikið mark takandi á þeim varðandi hvað sumarið ber í skauti sér. Síðasti leikurinn hins vegar sem við spiluðum er mun marktækari að því leiti að þá vorum við komnir í annað leikkerfi og áherslurnar voru aðrar. Sá leikur vannst gegn mjög góðu liði Kára frá Akranesi. Það mikilvægasta í þeim leik var samt bara að vinna sigur, það þarf að búa til sigur hugarfar til að taka áfram með okkur í næstu verkefni.“

Megum við eiga von á að liðið verði styrkt fyrir sumarið? „Liðið mun þurfa á frekari styrkingu að halda, hugmyndin er að bæta tveimur leikmönnum við hópinn. Það hefur ekki verið gengið frá neinu í þeim efnum en vinnan er í gangi að finna góða leikmenn. Við þurfum einna helst að bæta við okkur leikmönnum fram á við, þar erum við helst þunnskipaðir.“

Hvað geturðu sagt okkur um þá leikmenn sem þegar hafa gengið til liðs við Stólana í vetur? „Við höfum þegar styrkt liðið að einhverju ráði frá því í fyrra. Sverrir Hrafn Friðriksson er kominn aftur til okkar eftir eitt ár á Vopnafirði. Hann er okkur mjög mikilvægur og mun styrkja varnarleik liðsins mikið. Domi er Spánverji sem búið hefur á króknum í nokkur ár en hefur að mestu leikið fyrir Kormák/Hvöt. Domi er vel spilandi og góður á boltann og getur leyst bæði varnar- og miðju stöður. Sigurður Pétur Stefánsson er ungur leikmaður sem kemur frá Kormáki/Hvöt. Siggi er mikið efni sem við vonumst til að muni þróast í mjög góðan leikmann. Svo kom til okkar þríeyki sem kemur uppúr unglingastarfi KR. Tveir þeirra eru Skagfirðingar út í gegn, Haukur Steinn Ragnarsson og Hafþór Bjarki Guðmundsson. Með þeim í för er svo vinur þeirra, Mikael Máni Atlason. Þeir hafa komið vel inn í liðið í vetur og munu vonandi geta aðstoðað okkur í okkar markmiðum í sumar. Svo má einnig minnast á að Ingvi Hrannar Ómarsson hefur allavegana hálfpartinn tekið skóna af hillunni og ætlar að vera okkur til halds og trausts eins mikið og hann getur í sumar og teljum við að reynsla hans muni nýtast okkur vel.“

Hvernig leggst svo sumarið í 3. deildinni í þjálfarateymið? „Sumarið leggst vel í okkur, liðið ætlar að leggja sig fram og hafa gaman að því að spila fótbolta. Liðið hefur ekki sett sér sameiginlegt markmið fyrir sumarið en aðalatriðið er að gera þetta lið tilbúnara að taka næsta skref í átt til framfara. Að mínu mati var liðið sem endaði tímabilið í fyrra ekki tilbúið til að taka skref upp um deild. Að þessu tímabili loknu vil ég að liðið sé tilbúið til þess að stíga það skref, hvort sem liðið verði áfram í sömu deild eða á leið upp í þá næstu. Leikmennirnir þurfa að eflast og þroskast svo liðið geti stigið næstu skref upp á við,“ segir Haukur að lokum.

Það má svo geta þess að svo skemmtilega vill til að Haukur og Feykir er jafnaldrar.

- - - -

Athugasemd! Það var ranghermt í afmælisblaði Feykis að Haukur hafi verið Stefáni Arnari Ómarssyni til aðstoðar sumarið 2016, þeir voru samverkamenn í þjálfun mfl. karla hjá Tindastóli, tóku við liðinu um mitt sumar og snéru afleitu gengi við en liðið endaði um miðja 2. deild eftir að hafa gælt við falldrauginn framan af sumri.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir