Kjördæmismót í Skólaskák og sumarfrí
Reglulegu vetrarstarfi Skákfélags Sauðárkróks lauk síðasta vetrardag með atskákmóti. Tefldar voru fimm umferðir með 15 mínútna umhugsunartíma og voru þátttakendur sex talsins. Efstur varð Jón Arnljótsson með fjóra vinninga. Þrjá vinninga hlutu þeir Pálmi Sighvatsson, Hörður Ingimarsson og Örn Þórarinsson. Guðmundur Gunnarsson hlaut tvo vinninga en Pétur Bjarnason var án vinnings.
Á heimasíðu klúbbsins kemur fram að fyrirhugað er að hafa tvær til þrjár æfingar stuttu fyrir Landsmót U.M.F.Í. sem verður haldið á Sauðárkróki í sumar. Teflt verður 14. júlí, fimm umferðir, 25 mínútna skákir. Skráning er á heimasíðu Landsmótsins, en Skákfélag Sauðárkróks sér um framkvæmd mótsins.
Á morgun, 21. apríl kl 13.30, verður haldið Skólaskákmót fyrir Norðurland vestra, í Húsi frítímans, Sæmundargötu 7, á Sauðárkróki. Tefldar verða skákir með tíu mínútna umhugsunartíma 5-7 umferðir eftir þátttöku. Sigurvegarar vinna sér þátttökurétt á Landsmóti í Skólaskák, en þar er keppt í tveimur aldursflokkum, 1.-7. bekk og 8.-10. bekk. Landsmótið er dagsett 5.-7. maí, í Reykjavík. Mótið á laugardaginn er opið öllum grunnskólabörnum, skráning er í gegn um grunnskólana, eða hjá Jóni Arnljótssyni í jhaym@simnet.is eða 865 3827 eða á staðnum fyrir kl 13.30.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.