Jesse Shugg með þrennu í stórsigri Stólastúlkna á Húsvíkingum
Kvennalið Tindastóls tók á móti liði Völsungs í 1. deildinni í knattspyrnu í gær. Þær húsvísku hafa oft reynst Stólastúlkum erfiðar en þær mega augljóslega muna sinn fífil fegurri því Stólastúlkurnar yfirspiluðu þær og unnu glæsilegan 6-0 sigur og tilltu sér á toppinn í C-riðli 1. deildar kvenna.
Tindastólsstúlkur biðu ekki boðanna og voru eldsnöggar að ná forystunni í leiknum. Fyrsta markið gerði Kasey Wyer og síðan var komið að þætti markahróksins Jesse Shugg. Hún gerði annað mark Stólastúlkna á 12. mínútu og það tók hana aðeins átta mínútur að fullkomna þrennuna. Annað markið kom á 17. mínútu og það þriðja þremur mínútum síðar. Hugrún Pálsdóttir gerði fimmta mark Tindastóls á 28. mínútu og staðan 5-0 í hálfleik.
Kolbrún Ósk Hjaltadóttir gerði sjötta og síðasta mark leiksins í upphafi síðari hálfleiks en síðan voru helstu kanónurnar hvíldar enda margir leikir framundan næsta hálfa mánuðinn. Þá er gaman að geta þess að varnarjaxlinn Snæbjört Pálsdóttir lék sinn 100. leik fyrir meistaraflokk Tindastóls.
Nú á fimmtudag mæta stelpurnar Sindra á Sauðárkróksvelli og hefst leikurinn kl. 16:00 og þriðjudaginn 23. ágúst kemur sameinað lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis í heimsókn á Krókinn og sá leikur verður kl. 19:00. Sem fyrr segir er lið Tindastóls á toppi riðilsins, er með 15 stig rétt eins og lið Sindra en Stólastúlkur hafa aðeins spilað sex leiki en önnur lið riðilsins hafa lokið átta leikjum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.