Jafnt í jöfnum leik í sunnanbáli á Króknum
Tindastóll og Selfoss mættust í kvöld í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu en bæði lið vildu krækja í stigin þrjú; Selfoss til að koma sér betur fyrir í toppbaráttunni en Stólastúlkur til að bæta stöðu sína í hinni baráttunni. Það fór svo að lokum að liðin skildu jöfn en hvorugu tókst að koma boltanum í markið enda lítið um góð marktækifæri og aðstæður ansi strembnar.
Það var hlýtt á vellinum en sunnan rokrassgat gerði leikmönnum ansi erfitt fyrir. Það má eiginlega segja að það hafi verið sviptivindar á vellinum og því var ekki við því að búast að leikmenn næðu að sýna sínar betri hliðar. Lið Selfoss byrjaði leikinn betur en það var þó Jackie sem fékk besta færið í fyrri hálfleik, komst í gott færi við markteigshorn gestanna eftir sendingu frá Hugrúnu en Guðný Geirs í marki Selfoss varði boltann í þverslá. Hin frábæra Hólmfríður Magnúsdóttir var lífleg í sókn gestanna og hún átti glæsilega sendingu inn fyrir vörn Stólanna á Evu Lind sem komst framhjá Amber í markinu en færið var orðið þröngt og María Dögg hreinsaði boltann af línu. Bæði lið fengu álitlegtar hornspyrnur í fyrri hálfleik en tókst ekki að skapa alvöru hættu.
Rétt eins og fyrri hálfleikur var sá síðari jafn. Lið Tindastóls ætlaði augljóslega að þrýsta boltanum upp völlinn og vinna innköst og hornspyrnur til að setja lið Selfoss undir pressu. Því miður voru hornspyrnurnar ekki vel framkvæmdar undan vindinum, fóru flestar aftur fyrir endamörk og því tókst ekki að ógna marki gestanna að ráði. Selfyssingar sóttu gegn vindi en vörn Stólanna hélt, þó stundum væri smá skjálfti þegar Hólmfríður kom á ferðinni með allar sínar fintur og fínerí. Það voru þó hornspyrnur Selfossliðsins sem skópu mestu hætturnar en allt kom fyrir ekki.
Jafntefli því sanngjörn úrslit þegar upp var staðið. Í liði Tindastóls var Kristrún ólseig og límdi sig á köflum svo rækilega á Hólmfríði að hún var eins og tattó. Dom átti sennilega sinn besta leik fyrir Stólastúlkur, var grimm og sterk. Þá átti Hugrún fína spretti en í heildina var vinnslan hjá heimastúlkum frábær og varnarlega stigu stelpurnar varla feilspor. Í síðari hálfleik varð leið 1, langur fram eða upp kantana, of oft fyrir valinu í stað þess að reyna að færa boltann rólega fram völlinn. En leið 1 hefur reyndar oft gefist Stólastúlkum vel þó ekki hafi hún skilað marki í kvöld.
Jafntefli gefur liðunum lítið en heimastúlkur geta þó glaðst yfir því að hafa náð í fyrsta stig sitt eftir sex vikna eyðimerkurgöngu í Pepsi Max deildinni. Senn opnast leikmannaglugginn og þá er stefnt að því að styrkja lið Tindastóls. Kannski væri samt best að byrja á því að semja við fjölskyldu Murr um að vera hér út tímabilið því betra stuðningsfólk finnst varla – þau náðu meira að segja að fá Króksarana í kringum sig til að klappa og hrópa: Áfram Tindastóll!
Jahéddnahér...
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.