Íþróttagarpurinn Hilmir Rafn Mikaelsson - Ætlar að sýna sínar bestu hliðar á Ítalíu

Feykir greindi frá því í sumar að hinn efnilegi knattspyrnumaður frá Hvammstaga, Hilmir Rafn Mikaelsson, hefði gengið til liðs við Venezia á Ítalíu, sem hefur sínar bækistöðvar í Feneyjum, og spilar í Seríu A þar í landi.

Hilmir Rafn er 17 ára og hefur verið á mála hjá Fjölni í Grafarvogi og var hann meðal annars hluti af hinum sterka 3. flokki sem varð bikarmeistarar á síðasta ári og hafnaði í 2. sæti í Íslandsmótinu. Hilmir Rafn var íþróttagarpur Feykis og birtist viðtal við hann í blaðinu í haust sem við endurbirtum nú hér.

Íþróttafélög: -Í dag spila ég fyrir Venezia en áður spilaði ég fyrir Fjölni í Grafarvogi og Kormák á Hvammstanga.
Árgangur: -2004.
Hvar ólstu upp? -Ég ólst upp á Hvammstanga .
Hverra manna ertu? -Foreldrar mínir heita Mikael Þór Björnsson og Sólrún Guðfinna Rafnsdóttir.

Hvernig stóð á því að þú fórst í Fjölni? -Þegar ég var 14 ára var 4. flokkur Fjölnis að fara í ferð til Spánar og það vantaði fimm stráka í hópinn svo þessi ferð myndi ganga upp. Vinkona mömmu, sem á son í Fjölni, lét hana vita að það vantaði í hópinn svo ég og fjórir aðrir strákar frá Hvammstanga fórum með í þessa ferð. Eftir ferðina vildu þeir endilega fá mig yfir í Fjölni og það varð úr að ég fór þangað.
Hvernig hefur gengið þar? -Það hefur gengið mjög vel hjá Fjölni. Er mjög sáttur að hafa valið Fjölni.
Hvað geturðu sagt mér um samning þinn við Venezia FC? -Þetta er lánssamningur sem gildir í eitt ár eða þangað til tímabilið byrjar á Íslandi. Eftir þetta ár þá hafa þeir kauprétt á mér.

 

Hvenær var stefnan sett á atvinnumennsku í fótbolta? -Það hefur alltaf verið draumur að verða atvinnumaður í fótbolta.
Helstu íþróttaafrek: -Ég er tvöfaldur Bikarmeistari í 3. flokki með Fjölni og á eldra árinu í 3. flokki var ég markahæstur í bæði deild og bikar.

Skemmtilegasta augnablikið: -Það var í sumar þegar ég var búinn að klúðra þremur dauðafærum á móti Víking Ó þegar við vorum 0-1 undir. Við náum að jafna í uppbótartíma, síðan slepp ég einn í gegn á lokasekúndu leiksins og skora, hef sjaldan verið jafn glaður.
Neyðarlegasta atvikið: -Ég man ekki eftir neinu neyðarlegu sem ég hef lent í.
Einhver sérviska eða hjátrú? -Nei, ekkert sérstakt.

Uppáhalds íþróttamaður? -Cristiano Ronaldo.
Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? -Hrafn Viggó í FIFA.
Hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? -Ég myndi rústa honum og hann ætti aldrei breik.

Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? -Þegar fortnite [fjölspilunartölvuleikur] var upp á sitt besta var ég mjög líklega best ipad fortnite player á Íslandi.
Lífsmottó: -Hafa gaman af lífinu og muna að brosa.
Helsta fyrirmynd í lífinu: -Mamma, pabbi og kærastan því þau eru alltaf tilbúin að styðja mig. Einnig systkini mín í því sem við erum að gera.

Hvað er verið að gera þessa dagana? -Það er mjög mikið af æfingum þessa dagana og ég er því aðallega að fókusera á það.
Hvað er framundan? -Tímabilið fer að byrja hérna á Ítalíu að þá mun maður sýna sínar bestu hliðar.

Áður birst í 36. tbl. Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir