Íslandsmeistaramót í ísbaði á Sauðárkróki á morgun
Á morgun, miðvikudag, verður haldið Íslandsmeistaramót í ísbaði í sundlaug Sauðárkróks. Áður en keppni hefst mun Benedikt S. Lafleur kynna meistararitgerð sína um heilsugildi kuldameðferða í vatni og víxlbaða.
Kynningin kemur í kjölfar meistaravarnar Benedikts á ritgerð sinni um heilsugildi sjávarbaða: Vatnið er kalt og djúpt eins og vitund mín sjálfs. Reynsla og upplifun sjósundsiðkenda af áhrifum sjávarbaða á heilsu og líðan og möguleikar í íslenskri heilsuferðaþjónustu.
Eftir kynningu fá sundlaugargestir að prófa á eigin skinni að dvelja í smá stund í ísköldu vatni, 0-1 gráðu á celsíus. Eftir það hefst keppnin um það hver getur lengst dvalið í ískarinu. Læknir verður á staðnum og leitast við að gæta öryggis keppenda og gesta á staðnum. Boðið verður upp á rjúkandi kaffi og kjötsúpu að baði loknu. Kynningin og keppnin eru hluti af Sæluvikudagskrá Skagafjarðar og fær sigurvegarinn bikar að launum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.