Ísak Óli hlýtur styrk úr afrekssjóði FRÍ
Þann 17. Maí úthlutaði Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) styrkjum úr afrekssjóði FRÍ. Tilgangur afrekssjóðs FRÍ er að styrkja það frjálsíþróttafólk sem hefur náð góðum árangri í sínum greinum, fyrir komandi keppnistímabil.
Skagfirðingurinn Ísak Óli Traustason var einn þeirra sem hlaut styrk. Styrkurinn sem Ísak Óli fékk er hvatningaúthlutun fjölþrautaverkefnis FRÍ sem er liður í afrekssjóði. Hann hefur náð góðum árangri í sjöþraut á innanhústímabilinu í vetur en hann fékk hæst 5355 stig í þeirri þraut.
Feykir hafði samband við Ísak Óla og spurði hann út í styrkveitinguna.
„Þetta er styrkveiting frá FRÍ, sem kemur sér rosa vel þar sem að ég stend að stórum hluta sjálfur straum að kostnaði við það að stunda frjálsar íþróttir. Þetta kom bara skemmtilega á óvart og kemur sér mjög vel fyrir sumarið og gefur mér eflaust tækifæri til þess að sækja einhver mót erlendis.“ Segir Ísak.
Guðmundur Karlssson, framkvæmdarstjóri segir eftirfarandi um styrkveitinguna til Ísaks Óla:
"Í raun er það þannig að það er gríðarleg vinna og óeigingirni sem felst í því að vera fjölþrautarmaður eða -kona á Íslandi og hugmyndin með þessu hvatningarstyrk er að hvetja fólk áfram til að leggja hart að sér. Þessi greinarhluti hefur oft gleymst og nú er það þannig að Ísak Óli náði yfir 1000 stigum skv. alþjóðlegum stigalistum í vetur og því tækifæri til að verðlauna það enda heimild hjá Afrekssjóði FRÍ að veita sérstyrki."
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.