ÍR liðið var sterkara í fyrsta leik úrslitakeppninnar
Kvennalið Tindastóls hóf leik í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í körfubolta í dag og var leikið í TM Hellinum gegn heimastúlkum í ÍR. Breiðhyltingar enduðu í öðru sæti deildarkeppninnar en lið Tindastóls í áttnda. Heimastúlkur voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu með 18 stigum í hálfleik en Stólastúlkur bitu betur frá sér í síðari hálfleik og náðu að klóra örlítið í bakkann. Lokatölur 80-66.
Inga Sólveig og Eva Wium gerðu fyrstu körfur leiksins fyrir Tindastól en um miðjan fyrsta leikhluta náðu heimastúlkur yfirhöndinni og leiddu 19-11 að honum loknum. ÍR liðið bætti enn í í öðrum leikhluta og var yfir 42-24 í hléi. Þristar frá Ingu og Karen Lind löguðu stöðuna í upphafi síðari hálfleiks en heimastúlkur voru skömmu síðar komnar 20 stigum yfir. Stelpurnar okkar börðust af krafti og þær náðu að saxa aðeins á forskot ÍR í fjórða leikhluta en það dugði skammt.
Eva Wium var stigahæst með 21 stig í dag og hún tók einnig fimm fráköst líkt og Inga Sólveig. Lið ÍR var mun sterkara undir körfunni og tók 55 fráköst á meðan að lið Tindastóls tók 30. Marín Lind var með 18 stig og Berglind skilaði ellefu stigum á töfluna.
Lið ÍR hefur því tekið forystuna í einvígi liðanna í átta liða úrslitum en vinna þarf tvo leiki til að komast áfram í undanúrslitin. Næsti leikur verður í Síkinu á sunnudag kl. 16:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.